Fara í efni
Fréttir

Kynbundið ofbeldi rætt á afmælisráðstefnu

Starfsfólk Jafnréttisstofu hefur haft í nógu að snúast undanfarið við að undirbúa afmælisráðstefnu í tilefni af 25 ára afmæli stofnunarinnar.

Jafnréttisstofa fagnar 25 ára afmæli sínu með afmælisráðstefnu á mánudaginn. Á ráðstefnunni verður kastljósinu beint að kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu ofbeldi.

Markmið ráðstefnunnar, sem fram fer í Hofi milli kl. 13 og 16 á mánudaginn, er að skapa vettvang fyrir fræðslu, umræðu og meðvitund um að jafnrétti sé ekki „komið“, heldur sé enn þörf á baráttu, sérstaklega gagnvart kynbundnu og stafrænu ofbeldi. Á ráðstefnunni mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir halda erindi um sögu og stöðu jafnréttismála en síðan verða pallborðsumræður með áherslu á stafrænt ofbeldi þar sem m.a. dómsmálaráðherra, fræðimenn og fulltrúar ungu kynslóðarinnar taka þátt.

Ingibjörg Sólrún verður með erindi á ráðstefnunni í Hofi. 

Mannréttindi mikilvæg í stafrænum heimi

„Á þessari ráðstefnu ætlum við að ræða um stafrænt ofbeldi og mikilvægi þess að jafnrétti og mannréttindi séu höfð að leiðarljósi í stafrænum heimi eins og annars staðar í samfélaginu,“ segir Martha Lilja Olsen framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Hún bendir á að þróun í gervigreind hafi gert slíkar áskoranir flóknari og það sé mikilvægt að lagalegt umhverfi nái að halda í við tæknina. „Við þurfum að tala meira um hversu hratt hinn stafræni heimur og gervigreindin eru að þróast og hversu auðvelt það er að beita ofbeldi í skjóli nafnleyndar á netinu. Þá viljum við líka beina athyglinni að mikilvægi þess að mannréttindi og jafnrétti séu höfð að leiðarljósi í allri stafrænni þróun,“ segir Martha. Hún bætir við að með ráðstefnunni vill Jafnréttisstofa einnig undirstrika að stofnunin sé vettvangur til að ræða ný og flókin mál sem tengjast jafnrétti og mannréttindum í hraðri samfélags- og tækniþróun.

Við þurfum að tala meira um hversu hratt hinn stafræni heimur og gervigreindin eru að þróast og hversu auðvelt það er að beita ofbeldi í skjóli nafnleyndar á netinu. Þá viljum við líka beina athyglinni að mikilvægi þess að mannréttindi og jafnrétti séu höfð að leiðarljósi í allri stafrænni þróun.

Fjölbreytt verkefni á fámennum vinnustað

Alls starfa átta manns hjá Jafnréttisstofu, sem er staðsett á Akureyri, en hún er ein af fáum opinberum stofnunum sem hafa höfuðstöðvar úti á landi. Martha segir að þó að stofnunin sé fámenn séu verkefnin fjölbreytt. Helstu verkefni stofnunarinnar tengjast eftirliti með framkvæmd jafnréttislaga og lögum um jafna meðferð innan og utan vinnumarkaðar. Þar eru stærstu verkefnin tengd eftirliti með innleiðingu og framkvæmd jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofanana, ráðgjöf, fræðsla og upplýsingagjöf í tengslum við málaflokkinn og stuðla að rannsóknum og úttektum um jafnréttismál. „Við veitum t.d ráðgjöf til fyrirtækja og stofnana, söfnum og birtum tölfræði og framkvæmum úttektir á stöðu jafnréttismála,“ segir Martha og bætir við að hún hefði gjarnan viljað sjá stofnunina stækka því ný lög og lagabreytingar í gegnum árin hafi gert það að verkum að verkefnum stofnunarinnar hefur fjölgað, eins og t.d. með tilkomu laga um jafna meðferð innan og utan vinnumarkaðar og verkefnum í tengslum við jafnlaunamál „Við erum, eins og margar ríkisstofnanir í stöðugri baráttu við skort á fjármagni, en samt hefur okkur tekist að halda ótrauð áfram, forgangsraða verkefnum og styðja við samfélagið og stuðla að jafnræði.”


Starfsmenn Jafnréttisstofu eru átta talsins. Frá vinstri: Jón Fannar Kolbeinsson, Bryndís Elfa Valdemarsdóttir, Úlfhildur J. Ásdísar Þórarinsdóttir, Jón Ingvi Ingimundarson, Tryggvi Hallgrímsson og Hjalti Ómar Ágústsson. Fyrir framan hópinn stendur Martha Lilja Olsen en á myndina vantar Önnu Lilju Björnsdóttur.

Skortir rannsóknir um stöðu mismunandi hópa

Aðspurð út í framtíð Jafnréttisstofu, sem eins og áður segir fagnar 25 ára afmæli sínu um þessar mundir, segir Martha að á síbreytilegum tímum séu endalausar nýjar áskoranir að takast á við. Þrátt fyrir að Ísland sé eitt af þeim löndum sem teljast í fararbroddi í jafnréttismálum á heimsvísu þá sé staðan ekki fullkomin og enn séu mörg verkefni óunnin. „Það er enn kynbundinn launamunur, konur bera meiri ábyrgð á heimilum og kynbundið ofbeldi er samfélagslegt mein,“ segir Martha og bætir við að mikilvægt sé að taka þátt í umræðunni og auka fræðslu um stafrænt ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi. „Þá skortir okkur líka upplýsingar, rannsóknir og úttektir um stöðu mismunandi hópa til að samfélagið geti tekið upplýstar ákvarðanir í jafnréttismálum. Það er eitthvað sem ég myndi vilja að yrði gert meira af í framtíðinni. Auðvitað væri draumurinn að það væri ekki þörf fyrir svona stofnun og að við getum treyst því að fullkomið jafnrétti ríki í samfélaginu en það virðist vera óraunhæfur draumur, að svo stöddu a.m.k.,” segir Martha að lokum.

Áhugasömum er bent á að ráðstefnan er öllum opin og hægt að skrá sig hér.