Fara í efni
Fréttir

Krónan farin að bjóða upp á heimsendingu

Frá fyrsta starfsdegi Krónunnar á Akureyri, 1. desember á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Krónan á Akureyri býður frá og með deginum í dag upp á heimsendingarþjónustu á vörum úr versluninni. Pantað er í gegnum snjallverslun Krónunnar, ýmist á vefnum eða í Krónuappinu, og er heimsending ókeypis er verslað ef fyrir 15 þúsund krónur eða meira. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Krónan opnaði fyrstu verslun sína á Akureyri að Tryggvabraut 8 þann 1. desember síðastliðinn. Fjöldi vörutegunda í versluninni hleypur á þúsundum, auk þess sem þar er að finna kjötborð og útibú veitingastaðanna RUB23 og Wok on,“ segir í tilkynningunni.

„Viðskiptavinum býðst nú að panta sér vörur frá versluninni beint heim að dyrum. Fyrst um sinn verður aðeins boðið upp á heimsendingu þegar pantað er með þessum hætti í snjallverslun Krónunnar, en ekki að sækja vörurnar í verslunina.

Sem fyrr segir er snjallverslun Krónunnar aðgengileg á heimasíðu verslunarinnar, kronan.is, og í Krónuappinu sem er aðgengilegt í App store og Play store.“