Kristrún og Logi bjóða í morgunkaffi í fyrramálið

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra býður til opins fundar á Akureyrarflugvelli á milli klukkan 8.00 og 9.00 í fyrramálið, fimmtudag. Með henni á fundinum verður 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.
Akureyringar, nærsveitungar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta og eiga milliliðalaust samtal við ráðherrana. Fundurinn verður haldinn í millilandaflugssalnum á flugvellinum og boðið verður upp á kaffi og kruðerí.
Fundurinn er sá fyrsti af þremur sem Kristrún og Logi blása til í Norðausturkjördæmi á morgun, að því er segir í tilkynningunni. Strax eftir morgunkaffið á Akureyri fljúga þau á Vopnafjörð, þar sem haldinn verður súpufundur á Hótel Tanga klukkan 12. Því næst er förinni heitið í Neskaupstað, þar sem boðið er til opins fundar í félagsheimilinu Egilsbúð klukkan 17.
Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook.