Fara í efni
Fréttir

Kristján Gylfason kaupir Bakaríið við brúna

Kristján Gylfason var mættur í baksturinn og reksturinn í morgun, að sjálfsögðu með hárnetið á sér þegar Akureyri.net leit við í spjall og myndatöku. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Kristján Gylfason hefur keypt og tekið við rekstri Bakarísins við brúna af Andrési Magnússyni. Bakaríið við brúna hefur verið vinsælt meðal Akureyringa og gesta frá upphafi, en í vor verða 25 ár frá því að Andrés stofnaði fyrirtækið. Í dag er bakaríið og kaffihúsið um 25 manna vinnustaður, en stöðugildin á bilinu 12-15.

Útsendari frá Akureyri.net leit við í kaffibolla og spjall í morgun við fráfarandi og nýjan eiganda, sem vill reyndar svo til að eru fyrrum vinnufélagar í bakstrinum.

Draumastaða að vera með akureyrskt fyrirtæki

Andrés kveðst hæstánægður með söluna, segir það draumastöðu að fyrirtækið verði áfram akureyrskt, en ekki útibú að sunnan og hluti af einhverri stærri keðju.

„Það er draumastaða að þetta verði áfram akureyrskt fyrirtæki, ekki eitthvert útibú að sunnan, og líka að starfsfólkið lendi í góðum höndum hjá ungu og fersku fólki,“ segir Andrés. Hann leggur einnig mikla áherslu á að hann hafi verið mjög heppinn með „geggjað starfsfólk,“ eins og hann orðar það. Sumar af konunum sem starfa hjá bakaríinu í dag hafa enda staðið vaktina í 24 ár, frá því að bakaríið var stofnað. Hann gefur ekki mikið út á hvað hann sjálfur ætlar að gera. „Þegar einar dyr í lífinu lokast þá opnast aðrar. Það er bara spurning um að koma auga á þær.“


Fyrrum vinnufélagar í Kaupfélagsbakaríinu, Kristján Gylfason og Andrés Magnússon. Nú hefur Kristján keypt rekstur Bakarísins við brúna af Andrési. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Fjölbreytni í vöruúrvali og gæðavara

Kristján tekur undir með Andrési og segir fyrirtæki eins og Bakaríið við brúna njóta meiri góðvildar út á það að vera í eigu Akureyringa, en ekki útibú og hluti af stærri keðju. „Fólk segir líka að þetta sé eitt flottasta bakarí á landinu í vöruúrvali og gæðum,“ segir Kristján. Hann kveðst því einfaldlega ætla að halda áfram á svipuðum nótum, vinna áfram með það sem vel gengur, en auðvitað komi þó alltaf inn nýir straumar með nýju fólki. Þeir Kristján og Andrés benda líka á að neyslan þróist og breytist og fyrirtækið fylgi því.

Sérstaða Bakarísins við brúna á akureyrskum markaði hefur verið fjölbreytni í vöruúrvali og gæðavara. Bakaríið er einnig afar vel staðsett, í alfaraleið og stutt frá verslunarmiðstöðinni Glerártorgi.

Þeir Andrés og Kristján unnu saman í Kaupfélagsbakaríinu á sínum tíma. Andrés reddaði Kristjáni þá vinnu sem unglingi á sautjánda ári. Seinna stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Daglegt brauð, sem hann rak frá á árinu 2001 til 2017. Kristján hefur verið kokkur og háseti á sjó í nokkur ár, en snýr nú aftur í land og hellir sér í baksturinn og reksturinn á Bakaríinu við brúna.


Stutt frétt í innblaði Dags um Akureyri-Norðurland rúmri viku eftir opnun Bakarísins við brúna í maí 1999. Skjáskot af vefnum timarit.is.