Fara í efni
Fréttir

Kristinn Rúnar fer fram: „Bóndi í boði!“

Kristinn Rúnar Tryggvason, 53 ára bóndi á Hóli í Kelduhverfi, gefur kost á sér í forvali Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosninganrnar í haust, og óskar eftir 2. til 4. sæti  á lista.

„Ég hef staðið fyrir búrekstri síðan 1989 – hefðbundnum búskap og alls konar öðru með eins og ferðaþjónustu, gistingu, hestaleigu, verktakastarfsemi í landbúnaði og skólaakstri svo eitthvað sé nefnt. Ég hef verið virkur í félagsmálum í minni heimabyggð og meira segja fengið að syngja með Karlakórnum Hreim,“ segir Kristinn Rúnar í tilkynningu.

„Það sem rekur mig áfram í stjórnmál og áhuga á þeim er fyrst og fremst byggðamál sem auðvitað spanna flesta þætti samfélagsins eins og t.d. atvinnumál, landbúnaður, samgöngur, fjarskipti, tækifæri til menntunar, jafnréttismál og svo framvegis. Það er aðallega byggðaþróunin sem vekur mér ugg og ég hef átt erfitt með að horfa upp á byggðina mína og upplifa þá hnignun sem þar hefur átt sér stað síðustu áratugina. Jafnrétti til búsetu er lykilatriði og við eigum að hafa kjark til að beita skattkerfinu til að ná árangri. Ég vil leggja mitt af mörkum til að reyna að snúa þessu við því ég trúi að við sem þjóð værum mun fátækari ef byggð í landinu leggst víða af eins og allt stefnir í að óbreyttu. Við höfum mörg úrræði sem ekki hafa verið notuð hérlendis en gætu snúið þessari þróun við og mun ég fara nánar út í það í pistlum og greinum á næstunni,“ segir Kristinn Rúnar.

Þessi hafa þá tilkynnt að þau óski eftir sæti á lista Framsóknarflokksins:

  • 1. sæti Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður
  • 1. sæti Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri
  • 2. sæti Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð
  • 2. sæti Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi og varaþingmaður
  • 2. - 3. sæti Helgi Héðinsson, oddiviti Skútustaðahrepps
  • 2. - 4. sæti  Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi á Hóli í Kelduhverfi