Krambúðinni við Byggðaveg lokað

Krambúðinni að Byggðavegi 98 á Akureyri verður lokað fyrir fullt og allt á næstu dögum. Þar með lýkur rúmlega sex áratuga verslun á staðnum; KEA (Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri) byggði húsið á horni Byggðavegar og Hrafnagilsstrætis og hóf þar verslunarrekstur árið 1964.
Útsala hófst í versluninni í morgun; allar almennar vörur eru á 50% afslætti að sögn Svans Valgeirssonar, framkvæmdastjóra Krambúða og verslana 10-11 hjá Samkaupum. „Við stefnum að því að tæma verslunina á nokkrum dögum og loka. Verslunin hefur verið rekin með tapi of lengi og því er þessi ákvörðun tekin,“ segir Svanur í samtali við akureyri.net.
„Við höfðum náð samkomulagi við fólk sem vildi leigja af okkur og hefja rekstur nú um mánaðamótin en urðum að rifta því samkomulagi á síðustu stundu. Við erum alveg til í að skoða samstarf eða bara að leigja húsnæðið ef einhver sér tækifæri í að hefja þarna rekstur.“
Starfsfólk Krambúðarinnar við Byggðaveg lætur af störfum um mánaðamótin. „Einhverjir fara að vinna í öðrum verslunum Samkaupa á Akureyri en aðrir snúa sér að öðru. Við þökkum þeim vel unnin störf og óskum þeim góðs gengis,“ segir Svanur.
Samkaup halda áfram rekstri Krambúðarinnar við Borgarbrautinni auk þess að reka verslanir Nettó á Glerártorgi og í Hrísalundi, og Extra í Kaupangi.