Fara í efni
Fréttir

Körfuboltadeild Þórs stokkar spilin upp á nýtt

Tveir strákanna sem fæddir eru 2001 og léku í mjög sigursælum yngri flokkum Þórs. Baldur Örn Jóhannesson, til vinstri, og Kolbeinn Fannar Gíslason. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs sagði nýlega upp samningum við þrjá erlenda leikmenn karlaliðs félagsins og hefur ákveðið að stokka spilin upp á nýtt. Ljóst er að Þórsliðið fellur úr efstu deild í vor og stjórnin hefur ákveðið að byggja liðið upp á heimamönnum í nánustu framtíð.

„Þetta voru þung skref að stíga enda vita flestir að erfitt er að spila án erlendra leikmanna í efstu deild. Nógu erfiður hefur þessi körfuboltavetur verið hér í Þorpinu,“ segir Hjálmar Pálsson, formaður körfuknattleiksdeildar, við Akureyri.net. Þórsarar voru afar óheppnir með meiðsli þeirra útlendinga sem samið var við í vetur en alls hafa sjö komið til liðsins á keppnistímabilinu og þrír þeirra horfið meiddir á braut.

Einn erlendur leikmaður verður með liðinu til loka keppnistímabilsins, Daninn August Emil Haas, sem er nýkominn.

Hjálmar segir stefnt að því að semja við einn útlending næsta vetur – „einhvern með reynslu, sem getur hjálpað ungu leikmönnunum okkar, sem við viljum að venjist því að vera í aðahlutverkum. Við förum ekki í það að leita sérstaklega að íslenskum leikmönnum en ef einhver vill koma, til dæmis í skóla, getum við kannski hjálpað honum eitthvað.“

Breytingar í vændum?

Rekstur deildarinnar, eins og margra íþróttadeild hérlendis, hefur verið erfiður síðustu misseri. „Staða liðsins í deildinni er eitt, en sú vinna og þær skuldbindingar sem það felur í sér að reyna að berjast við að reka lið í efstu deild í núverandi umhverfi er annað. Takmarkanir og áhorfendabann á heimaleikjum sem og bann við viðburðum í Covid umhverfi vetrarins hafa haft veruleg áhrif á tekjuáætlanir deildarinnar fyrir þetta tímabil. Hinn almenni stuðningsmaður hefur engu að síður stutt liðið ríkulega í öðrum fjáröflunum og fyrir það ber að þakka enda ómetanlegur stuðningur,“ segir Hjálmar.

Hann segir ákveðna undiröldu hjá félögunum og að umræður hafi átt sér stað um hugsanlegar breytingar. Aðspurður segir Hjálmar málið ekki endilega snúast um mikinn kostnað við fjölda útlendinga, að minnsta kosti ekki síður um að íslenskir strákar fái að spila meira en nú gengur og gerist víða.

Sums staðar erlendis eru í gildi reglur þess efnis að ákveðinn fjöldi leikmanna í hverju liði skuli hafa komið upp í gegnum yngri flokka í viðkomandi landi. „Það tíðkast til dæmis í Þýskalandi og við myndum styðja slíka breytingu.“

Með þolinmæði er framtíðin björt

„Flest lið í deildinni eru með þrjá til fimm erlenda atvinnumenn á sínum snærum. Mörg lið í næst efstu deild eru komin í sama „pakka“. Við sem að körfuboltahreyfingunni stöndum hljótum að spyrja okkur hvort þetta gangi upp til lengdar; að okkar mati, stjórnarmanna körfuknattleiksdeildar Þórs, getur þessi stefna ekki verið sjálfbær til framtíðar og því segjum við okkur í raun frá henni,“ segir Hjálmar. „Nú förum við í þá vegferð að byggja grunninn að okkur liði á okkar yngri iðkendum í komandi framtíð.“

Hann segir forráðamenn deildarinnar vilja ráða til félagsins fleiri öfluga þjálfara og búa þeim og iðkendum spennandi umhverfi. „Við þekkjum frábær dæmi, það nærtækasta er uppbyggingin á Selfossi sem gerði það að verkum að þaðan eru margir leikmanna karlalandsliðsins í handbolta í dag. Þannig teljum við best að horfa til framtíðar og til eflingar körfubolta á Akureyri, sem er þrátt fyrir gengi karlaliðs Þórs, í mikilli sókn. Iðkendum í yngri flokkum hefur fjölgað gífurlega, kvennalið félagsins er að taka þátt í 1. deildinni í fyrsta sinn í nokkur ár og gengur vel. Með smá þolinmæði er framtíðin björt,“ segir Hjálmar Pálsson.

  • Þórsarar mæta liði Vestra frá Ísafirði á Íslandsmótinu í kvöld í íþróttahöllinni á Akureyri. Leikurinn hefst klukkan 19.00.