Fara í efni
Fréttir

Knattspyrna: Jeppe Pedersen kominn í KA

Jeppe Pedersen er genginn til liðs við knattspyrnulið KA frá Vestra. Mynd: ka.is.

Danski knattspyrnumaðurinn Jeppe Pedersen skrifaði í dag undir tveggja ára samning við KA. Hann kemur til liðsins frá Vestra, þar sem hann var í stóru hlutverki og skoraði m.a. sigurmarkið í bikarúrslitaleiknum gegn Val sl. sumar.

Jeppe er 24 ára miðjumaður, uppalinn hjá Álaborg, og hefur m.a. leikið 32 leiki fyrir yngri landslið Dana. Hann er bróðir markamaskínunnar Patrick Pedersen hjá Val, sem er markahæsti leikamaður í sögu efstu deildar á Íslandi.

Jeppe er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir KA og í frétt á vefsíðu félagsins er bent á að hann hafi þegar sýnt styrk sinn hér á landi og að dýrmætt sé að fá inn leikmann sem hafi nú þegar aðlagast íslenska boltanum. Jeppe kom til Vestra um mitt sumar 2024 og átti stóran þátt í að liðinu tókst að halda sæti sínu í efstu deild það árið. Síðastliðið sumar var hann áfram lykilmaður hjá Vestra, lék 26 af 27 leikjum liðsins í deildinni, auk þess að tryggja liðinu bikarmeistaratitilinn.