Fara í efni
Fréttir

Kjörbúðirnar lækka verð á 200 vörum

Kjörbúðirnar lækka verð á 200 algengum nauðsynjavörum fram að áramótum.

Fram að áramótum mun verð á 200 algengum nauðsynjavörum í verslunum Kjörbúðanna verða lækkað. Þessar vörur verða boðnar á sama verði og í lágvöruverðsversluninni Prís í Kópavogi. Alls eru 18 verslanir reknar undir merkjum Kjörbúðanna víða um land, þar af ein á Akureyri. Kjörbúðirnar og Prís eru hluti af samstæðu Dranga hf.

Þessar 200 vörutegundir verða sérmerktar á Prís-verði í hillum Kjörbúðanna en Prís hefur verið ódýrasta matvöruverslunin á landinu samkvæmt mælingum ASÍ frá því hún opnaði, að því er segir í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að markmiðið með aðgerðinni sé að tryggja að fleiri hafi aðgang að nauðsynjavörum á Prís-verði um allt land. Einnig að hvetja fólk til að versla í sínu bæjarfélagi og styðja við öfluga verslun í heimabyggð. 

Ein af 18 Kjörbúðum er í verslunarmiðstöðinni Kaupangi á Akureyri en í októbermánuði sl. var versluninni Extra breytt í Kjörbúð. Verslun Extra var opin allan sólarhringinn og sami afgreiðslutími verður í Kjörbúðinni.