Fara í efni
Fréttir

Kiwanis gefur börnum hjálm 32. árið í röð

Björgvin Jónsson, forseti Kiwanisklúbbsins Kaldbaks, og þau Helena Maria Wasowicz úr Oddeyrarskóla og Haukur Heiðar Birkisson úr Lundarskóla. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kiwanisklúbburinn Kaldbakur á Akureyri gefur hátt í 300 börnum á Eyjafjarðarsvæðinu hlífðarhjálma í ár og tvö duttu í lukkupottinn þegar þau fengu forláta reiðhjól að auki.

Það voru þau Helena Maria Wasowicz úr Oddeyrarskóla og Haukur Heiðar Birkisson úr Lundarskóla sem voru dregin út og þáðu boð um að mæta í félagsheimili Kaldbaks á Akureyri í gær þar sem þau veittu hjólunum viðtöku, auk hjálms vitaskuld.

Þetta er í 32. skipti sem Kaldbaksmenn gefa börnum hlífðarhjálma. Það var Stefán Jónsson, fyrrverandi forseti Kaldbaks, sem enn er formaður hjálmanefndar klúbbsins, sem fékk hugmyndina 1991. Hann gekk á milli fyrirtækja og safnaði peningum, og það gekk nógu vel til þess að börn í 1. bekk allra grunnskóla bæjarins fengu gefins hjálm. Eimskip kom snemma að verkefninu með Kiwanismönnum og síðan 2005 hafa öll börn í 1. bekk grunnskóla hérlendis fengið hjálm að gjöf frá Kiwanis hreyfingunni á landsvísu.

Helena Maria Wasowicz og Haukur Heiðar Birkisson prófa nýju hjólin sín í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson