Fara í efni
Fréttir

Kimberley Dóra best hjá Þór/KA í sumar

Verðlaunahafar hjá Þór/KA þetta árið: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, besti leikmaðurinn, Margrét Árnadóttir, leikmaður leikmannanna og handhafi Kollubikarsins, og Bríet Fjóla Bjarnadóttir, efnilegasti leikmaðurinn. Mynd af vef Þórs/KA.

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir var valin besti leikmaður knattspyrnuliðs Þórs/KA á leiktíðinni sem nú er nýafstaðin hjá félaginu. Bríet Fjóla Bjarnadóttir var valin efnilegust og Margrét Árnadóttir var bæði valin leikmaður leikmannanna og hlaut Kollubikarinn, sem veittur er í minningu Kolbrúnar Jónsdóttur. 

Þór/KA hélt lokahóf sitt síðastliðið föstudagskvöld, en liðið lék lokaleik sinn í neðri hluta Bestu deildarinnar í Boganum kvöldið áður, þar sem eina jafntefli liðsins í deild og bikar þetta árið leit dagsins ljós. Þór/KA endaði í 7. sæti Bestu deildarinnar. Sandra María Jessen skoraði flest mörk fyrir Þór/KA í Bestu deildinni í ár, tíu mörk í 14 leikjum, auk tveggja marka í tveimur leikjum í bikarkeppninni, áður en hún hélt utan og samdi við lið 1. FC Köln. Karen María Sigurgeirsdóttir kom næst með fimm mörk í Bestu deildinni og eitt í Mjólkurbikarnum.

Fjallað er um verðlaunahafana á vef félagsins, thorka.is. Þar segir meðal annars um verðlaunahafana:

  • Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir er aðeins tvítug að aldri, en engu að síður orðin lykilmaður í liði Þórs/KA. Hún hefur aðallega spilað sem aftasti miðjumaður og þannig verið sterkur hlekkur í uppspili liðsins sem og í varnarleiknum, leikin og áræðin, baráttuglöð, útsjónarsöm og gefst aldrei upp. Kimberley Dóra spilaði allar mínútur í öllum leikjum liðsins í Bestu deildinni og Mjólkurbikarnum þetta árið, samtals 23 leiki, auk þess að spila sex leiki af sjö í Lengjubikarnum þar sem liðið fór alla leið í úrslitaleikinn. 
  • Bríet Fjóla Bjarnadóttir er á meðal efnilegustu leikmanna landsins, fædd 2010 en hefur nú þegar komið við sögu í 46 leikjum í meistaraflokki með Þór/KA, þar af 32 leikjum í efstu deild þar sem hún hefur skorað þrjú mörk. Þá á hún einnig að baki tíu landsleiki með yngri landsliðum Íslands og eiga þeir eflaust eftir að verða fleiri. Bríet Fjóla er þroskaður leikmaður miðað við aldur. Hún er einstaklega hæfileikarík knattspyrnukona og leggur sig fram við að bæta sig og þroska sig sem leikmann.
  • Margrét Árnadóttir var valin leikmaður leikmannanna í ár. Margrét hefur verið lykilleikmaður í liðinu á undanförnum árum, stjórnar sóknarleiknum á miðjunni, kröftug og ákveðin í sókn og vörn, hleypur endalaust og gefst aldrei upp. Hún var óheppin með meiðsli undir lok tímabilsins og missti af mikilvægum leikjum, en var að sjálfsögðu mætt á hliðarlínuna til að aðstoða þjálfarana og hjálpa liðinu. 

Kollubikarinn afhentur í 10. skipti

Félagið veitti Kollubikarinn í 10. skipti í ár, en hann er veittur til minningar um Kolbrúnu Jónsdóttur, fyrrum stjórnarkonu og knattspyrnukonu. Á vef félagsins segir að við val á þeirri sem hlýtur Kollubikarinn séu hafðir til hliðsjónar þeir eiginleikar sem prýddu Kollu sjálfa, áræðni, harka og dugnaður, ásamt fleiru. Kolbrún lést þann 6. júní 2016.

Sú hefð hefur skapast að dætur Kolbrúnar, Ágústa og Arna Kristinsdætur, hafi hönd í bagga við veitingu þessarar viðurkenningar. Arna las upp umsagnir um Margréti Árnadóttur, bæði frá þeim systrum, en einnig frá liðsfélögum og þjálfara. Í umsögn um Margréti sagði meðal annars: 

Það er ekki hægt að tala um þennan leikmann öðruvísi en með virðingu. Hún er ótrúlega duglegur leikmaður, ákveðin og baráttugjörn – sannkallaður baráttujaxl sem gefst aldrei upp, sama hvað á gengur. Hún hleypur og berst fyrir liðið sitt, leggur sig 100% fram á hverri einustu æfingu og í hverjum leik og sýnir í verki að liðið kemur alltaf fyrst. Hún er týpan sem myndi missa útlim fyrir liðið – og það er ekki einu sinni ýkjur. Hún er frábær fyrirmynd fyrir ungar knattspyrnukonur, bæði í framkomu og vinnusemi. Það er ekki mikill hávaði í henni – hún lætur verkin tala. Stundum heyrist þó smá tuð, enda hefur hún fengið nokkur gul spjöld fyrir það í gegnum tíðina.

Nánar er fjallað um Margréti og Kollubikarinn á vef Þórs/KA: Kollubikarinn 2025: Margrét Árnadóttir