Fara í efni
Fréttir

KEA gæti lagt fram 1,5 milljarða í sparisjóðina

KEA gæti lagt nýjum sparisjóði til allt að 1,5 milljörðum króna í nýtt hlutafé verði af sameiningu Sparisjóðs Höfðhverfinga og Sparisjóðs Austurlands. Þetta kom fram í máli Halldórs Jóhannssonar, framkvæmdastjóra KEA, á aðalfundi fjárfestingafélagsins í gærkvöldi.

KEA á 49% stofnfjár í Sparisjóði Höfðhverfinga. Þegar tilkynnt var um sameiningarviðræður sparisjóðanna tveggja í síðasta mánuði kom fram í tilkynningu að ef sameiningin gengi eftir myndi KEA „leggja sameinuðum sjóði til umtalsvert nýtt eigið fé á næstu árum til frekari vaxtar. Þannig verður til traustur og vel fjármagnaður sparisjóður.“ 

Halldór var á aðalfundinum í gær spurður hversu stóran hlut stjórnendur félagsins hugsuðu sér að leggja sparisjóðunum til. Hann sagði KEA  ekki myndi vilja eiga meira en 50% í nýjum sjóði, sagði ekki ljóst um hve mikla fjármuni yrði að ræða en sagði það geta orðið 1,3 til 1,5 milljarða króna.

Frétt Akureyri.net 21. mars: Sparisjóðir hefja sameiningarviðræður