Fara í efni
Fréttir

„Kaupi kannski mottu og geng með í mars!“

D vaktin vígaleg í dag. Frá vinstri: Hörður Halldórsson, Jónas Baldur Hallsson, Stefán Geir Andrésson, Eydís Sigurgeirsdóttir, Þorgeir Ólafsson og Hallgrímur Sigurðsson.

Mottumars er genginn í garð eins og margir vita, árlegt átak Krabbameinsfélags Íslands í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Þá er safnað til rannsókna, fræðslu og ráðgjafar á þann hátt að karlmenn safna yfirvararskeggi – mottu – og fólk heitir á þá. Lítill hópur sem ákvað í gær að taka þátt að þessu sinni er D-vaktin í Slökkviðinu á Akureyri, fimm karlar og ein kona, og hún skartaði að sjálfsögðu mottu í dag!

„Strákunum fannst ég býsna vígaleg, ég held þeir hafi verið ánægðir með mig,“ sagði Eydís Sigurgeirsdóttir við Akureyri.net í dag. „Ég kaupi kannski mottu í Tiger og geng með í mars – það gæti orðið sterkur leikur! Þetta er skemmtilegt, en aðalmálið er auðvitað að geta styrkt gott málefni.“

Strákarnir tóku sig til í dag og teiknuðu á hana skegg. „Eydís má ekki vera útundan þótt hún sé stelpa!“ segir Jónas Baldur Hallsson, varðstjóri.

Varðstjórinn segist hafa nefnt það við samstarfsmennina fyrir fáeinum dögum hvort þeir ættu ekki að taka þátt í mottumars og það hafi endanlega verið ákveðið í gær, þegar þeir voru í útkalli. „Þetta er ekki mjög flókið. Hér eru flestir með skegg svo það þurfti ekki að safna heldur snyrta!“ segir Jónas.

Jónas segir andlát góðs vinar, sem fékk heilaæxli og lést nýlega, hafa átt þátt í því að hann vildi taka þátt. „Við Þorleifur Jóhannsson – Leibbi trommari – vorum miklir mátar. Hann og pabbi voru vinir frá barnsaldri og ég ólst upp við það að Leibbi var mikið á heimilinu.“ Hann hafi viljað leggja góðum málstað lið í minningu Leibba.

Söfnun D-vaktarinnar