Fara í efni
Fréttir

Kálver verður opnað á Hótel Akureyri

Ræktunin í kálverinu fer fram á turni sem þessum.

Fyrir margt löngu var tekist á um hvort álver risi við Eyjafjörð. Ekkert varð úr því en nú hefur verið ákveðið að stofna kálver á Akureyri og öruggt að enginn gerir athugasemd við það heldur fagni mjög.

Kálver Akureyri, Urban Farm Akureyri, verður borgargarður á Hótel Akureyri við Hafnarstræti, eins og Daníel Smárason, einn eigenda hótelsins, orðar það. „Þar við ætlum að rækta til dæmis kálmeti, kryddjurtir, sprettur, æt blóm og ostrusveppi fyrir gesti á hótelinu og nærsamfélagið,“ segir hann.

Hótel Akureyri er rekið í tveimur húsum, Skjaldborg og Dynheimum, og kálverið verður í viðbyggingu norðan við Dynheima, gömlu kassagerðinni.

„Öll starfsemin er innandyra sem gerir okkur kleift að stýra öllu ræktunarumhverfi af mikilli nákvæmni. Það þýðir að við notum allt að 90% minna vatn og engan jarðveg. Í afurðunum verða því engin aukaefni eða skordýraeitur heldur bara ferskt og gott grænmeti, sneisafullt af næringu.“

Græn nálgun

Daníel segir að boðið verði upp á kynningar og námskeið, og fólki muni einnig standa til boða að koma á staðinn og upplifa. „Svo munum við bjóða Akureyringum uppá áskriftir af blandi í poka úr kálverinu.“

Daníel segir hugmyndina snúast um að gera starfsemi hótelsins sjálfbærari og að þjónusta nærsamfélagið betur. „Flestir gesta okkar hafa orð á að náttúra og umhverfið sé stærsta ástæða þess að lagt var í ferðalag á norðurhjara veraldar. Við viljum standa fyrir meira en að veita grundvallarþjónustu, og vonumst með þessari viðbót að upplifunin sem við höfum að bjóða sé bæði einstök og viðeigandi fyrir stað og stund en krafa viðskiptavina um græna nálgun fyrirtækja eykst sífellt, sem er mjög jákvætt.“

Umhverfisvæn sambúð við náttúruna

„Verandi aðeins 95 km frá heimaskautabaugi setur tilveruna í samhengi sem er nýstárlegt fyrir ferðamenn. Við erum í kjörinni aðstöðu til að fræða gesti um umhverfisvæna sambúð fyrirtækja við náttúruna og endalausa möguleika á notkun íslenskrar endurnýjanlegrar orku,“ segir Daníel.

„Við reynum að hafa andrúmsloftið á hótelinu eins heimilislegt og hægt er og viljum að sem flestir þættir starfseminnar endurspegli íslenska þjóðhætti og menningu. Eftir breytingar munu afurðir úr kálverinu okkar vera í aðalhlutverki í þeim mat sem við framreiðum, en einnig íslenskt hágæða hráefni eins og skyr, íslenskir ostar, hangikjöt, íslensk hráskinka, reyktur silungur, íslensk ber og annað góðgæti, sem er synd að halda ekki að ferðamönnum,“ sagði Daníel.

Verkefnið fékk styrk frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu „og við erum svo lukkuleg að vera í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og EIM sem er þróunar- og nýsköpunardeild á sviði sjálfbærni, grænnar orku og bættrar auðlindanýtingar.“

Daníel segir áætlað að kálverið verði opnað í byrjun júlí. 

Veitingastaður verður opnaður í Skjaldborg. Einn veggurinn verður táknrænn fyrir áherslur eigenda hótelsins.