Fara í efni
Fréttir

Kajakferðir í boði á Pollinum í sumar

Þeir „mátuðu“ kajakana frá Tröllaferðum við Pollinn í vikunni. Hinrik Jóhann Óskarsson, til vinstri, og Þorsteinn Lár Ragnarsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Boðið verður upp á kajakaferðir á Pollinum í sumar á vegum fyrirtækisins Tröllaferða. Tveir starfsmenn fyrirtækisins, Hinrik Jóhann Óskarsson og Þorsteinn Lár Ragnarsson, sigldu um á farartækjunum í vikunni til að kynna sér aðstæður og voru afar hrifnir.

Þegar blaðamaður hitti þá félaga var reyndar heldur kalt í veðri, en kvöldið áður sögðust þeir hafa róið út á Poll í fallegu veðri og algerri kyrrð og það hefði verið dásamlegt. Þeir ætla að hefja starfsemi 1. júní, voru staddir við Hof þegar Akureyri.net hitti þá en ekki liggur ljóst fyrir hvar þeir verða með bækistöð þegar þar að kemur.

Tröllaferðir fara hringinn með erlenda ferðamenn, frá Reykjavík um Suðurland og Austurland og Akureyri er yfirleitt síðasta gististaður áður en haldið er til Reykjavíkur. „Við komum alltaf hingað í lok dags, förum Víkurskarðið nema veðrið sé mjög slæmt og fólki finnst ótrúlega fallegt að koma þar niður þegar sólin er að setjast og sjá fjörðinn og Akureyri skyndilega blasa við,“ sagði Þorsteinn. Þeir segjst handvissir um að fólk í þeirra hópum verði spennt fyrir því að fara um á kajak á Pollinum, auk þess sem það verði kjörið fyrir aðra erlenda túrista, heimamenn og íslenska ferðalanga.