Fara í efni
Fréttir

Kaffihúsið Barr verður brátt opnað í Hofi

Kaffihúsið Barr verður brátt opnað í Hofi

Nýtt kaffihúss, Barr, verður opnað í menningarhúsinu Hofi í fyrstu viku júní. Þar hefur ekki verið veitingastaður síðan snemma árs.

Veitingastjóri Barr er Silja Björk Björnsdóttir. Hún segir nafnið sótt í þéttvaxna og hrjóstuga barrskóga landsins: „Meiningin að koma með græna náttúruna inn í menningarhúsið. Á Barr verður lögð áhersla á gæðakaffi frá Te & Kaffi, klassíska drykki í bland við nýjungar, kaffikokteila og auðvitað vandaða þjónustu við gesti. Boðið verður upp á súrdeigsbrauð frá Böggvisbrauði, dýrindis kökur og sætindi úr héraði, súpur og samlokur frá Múlabergi og gómsæt náttúruvín frá Berjamó,“ segir hún í tilkynningu.

Silja Björk hefur búið síðustu átta árin í Reykjavík en er fædd og uppalin á Akureyri. „Ég hef unnið í þjónustu- og veitingageiranum nánast alla mína starfsævi, komið að rekstri kaffihúsa Te & Kaffi og veitingastaða víða í borginni. Ég er mjög spennt að vera komin aftur heim til Akureyrar og njóta mín í faðmi Eyjafjarðarins og fjölskyldunnar og ekki skemmir fyrir að vera komin í flottan mannauð Menningarfélagsins. Það eru spennandi tímar framundan og sumarið verður bjart og skemmtilegt hjá okkur á kaffihúsinu, gott kaffi í sólinni með fallegasta útsýni bæjarins.“