Fara í efni
Fréttir

Kærar þakkir fyrir frábærar viðtökur!

Mánuður var í gær síðan frétta- og mannlífsvefurinn Akureyri.net hóf göngu sína að nýju eftir langt hlé, í ritstjórn undirritaðs. Það var föstudaginn 13. nóvember sem vefurinn fór „í loftið“ og síðan þá hafa nærri 250 fréttir, viðtöl, pistlar og aðsendar greinar birst, að meðaltali 6 til 7 á hverjum degi. Stefnt er að því að vefurinn sé fremur á jákvæðum nótum en hitt og slagorðið valið með það í huga: Oftast sólarmegin!

Umfjöllun er fjölbreytt, eins og flokkarnir efst á síðunni gefa til kynna: FRÉTTIR - ÍÞRÓTTIR - MANNLÍF - MENNING - PISTLAR - UMRÆÐAN - LJÓSMYNDIR - GAMLA MYNDIN. 

Undirritaður renndi nokkuð blint í sjóinn en óhætt er að segja að viðtökur hafi verið frábærar. Lestur er prýðilegur, nokkur þúsund manns fara inn á vefinn á dag þegar best lætur, fjölmargir hafa þakkað fyrir framtakið, með símtali, tölvupósti eða orðsendingu, og hvatningarorð hafa borist víða að. Slík viðbrögð eru dýrmæt.

Mjög var vandað til hönnunar vefsins og mikið er lagt upp úr ljósmyndum, sem fólk kann greinilega vel að meta. Ekkert sem snertir Akureyri og Akureyringa, hvar sem þeir eru í heiminum, er Akureyri.net óviðkomandi og eru lesendur eindregið hvattir til þess að benda á áhugavert efni til umfjöllunar. Það er hægt með pósti á skapti@akureyri.net, með símtali í 669-1114 eða með því að smella á tengil efst til vinstri á síðunni.

Ég leyfi mér einnig að benda á að hægt er að styrkja rekstur vefsins með frjálsum framlögum. Tengill til þess er efst til hægri á síðunni.

Auglýsendum er vinsamlega bent á netfangið auglysingar@akureyri.net 

Ég vona að 40 ára reynsla í blaðamennsku skili sér til ykkar, lesendur góðir. Vonandi hafið þig jafn mikla ánægju af vefnum og ég!

Bestu þakkir til lesenda, auglýsenda, þeirra sem styrkja vefinn nú þegar með framlögum, og annarra velunnara!

Skapti Hallgrímsson,
ritstjóri