Fara í efni
Fréttir

KA-menn töpuðu fyrir FH og eru komnir í sumarfrí

FH-ingar fögnuðu að vonum innilega eftir sigurinn en KA-menn voru súrir eins og gefur að skilja. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Handboltalið KA er komið í sumarfrí. KA-menn töpuðu fyrir FH-ingum, 25:19, á heimavelli í dag í átta liða úrslitum Íslandsmótsins, FH vann einvígið þar með 2:0 og er komið áfram í undanúrslit.

FH-ingar tóku frumkvæðið strax í byrjun og héldu forystunni allt til enda; voru fimm mörkum yfir eftir stundarfjórðung og munurinn var sex mörk í hálfleik, 16:10. KA-menn náðu góðum kafla um miðbik hálfleiksins og minnkuðu muninn í eitt mark, 11:10, en síðan small allt í baklás, Daníel Freyr markvörður reyndist þeim erfiður og KA skoraði ekki síðustu 10 mínútur hálfleiksins.

KA-menn byrjuðu seinni hálfleikinn vel, bilið var aðeins tvö mörk eftir 10 mínútur, 16:14, en FH-ingar hleyptu þeim ekki nær. Munurinn var tvö til þrjú mörk lengi vel en jókst hægt og rólega undir lokin án þess að FH-ingar settu nokkurn tíma í fluggír. Þeir eru númeri of stórir fyrir KA-strákana eins og vænta mátti miðað við stöðu liðanna í deildinni og niðurstaðan kemur því ekki á óvart, þótt í hvorugum leikjanna væri munurinn verulegur.

Mörk KA: Magnús Dagur Jónatansson 6, Ólafur Gústafsson 4, Ott Varik 3, Einar Rafn Eiðsson 2, Jóhann Geir Sævarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1, Dagur Árni Heimisson 1.

Bruno Bernat var frábær í KA-markinu í dag, varði 15 skot, þar af 2 víti - en 53,6% markvarsla hans hrökkt skammt að þessu sinni.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Bruno Bernat var frábær í markinu hjá KA og varði m.a. tvö víti. Aron Pálmarsson hafði þó betur gegn honum að þessu sinni frá vítalínunni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hinn ungi Magnús Dagur Jónatansson var markahæstur KA-manna í dag. Hann ræðir hér við Aron Pálmarsson á meðan hann tók FH-fyrirliðann úr umferð seint í leiknum Mynd: Skapti Hallgrímsson

Ólafur Gústafsson sækir að vörn FH í dag. Þetta var kveðjuleikur hans með KA. Mynd: Skapti Hallgrímsson