Fara í efni
Fréttir

KA-menn nældu í tvö stig með sigri á HK

Ólafur Gústafsson í skotfæri í gærkvöldi. Hann gerði sjö mörk í leiknum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA sigraði HK 33:30 í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni, í KA-heimilinu í gærkvöldi. Þetta var annar sigur KA í röð og þegar jólafríið skellur á er liðið því í 8. til 9. sæti deildarinnar ásamt Fram með 10 stig.

Gestirnir voru lengstum yfir í fyrri hálfleik, mest þremur mörkum en með góðum endaspretti náðu KA-menn að komast yfir, 19:18, áður en blásið var til leikhlés. KA-strákarnir höfðu naumt forskot fram í miðjan seinni hálfleik, komust svo þremur mörkum yfir um tíma en HK jafnaði, 21:21, þegar rúmar 10 mínútur voru eftir. KA komst aftur þremur mörkum yfir, Kópavogsdrengirnir neituðu þó að gefast upp og munurinn var aðeins eitt mark, 29:28, þegar um það til átta mínútur voru eftir. Þá jókst munurinn aftur og KA-menn fögnuðu dýrmætum sigri gegn botnliðinu.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson og Ólafur Gústafsson 7 hvor, Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Einar Birgir Stefánsson 4, Patrekur Stefánsson 3, Pætur Mikkjalsson og Arnar Freyr Ársælsson 2 hvor og Arnór Ísak Haddsson og Allan Nordberg 1 hvor.

Nicholas Satchwell varði 20 skot af 48, sem er 41,7% markvarsla.

Smellið hér til að sjá all tölfræðina úr leiknum

Staðan í deildinni