Fara í efni
Fréttir

Jón Eiður gekkst undir lungnaígræðslu

Jón Eiður Ármannsson gekkst undir lungnaígræðslu í Gautaborg og gekk aðgerðin vonum framar.

Akureyringurinn Jón Eiður Ármannsson gekkst undir lungnaígræðslu á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg aðfaranótt síðastliðins laugardags. Aðgerðin gekk vonum framar, en ekki mátti miklu muna að Jón Eiður yrði of seinn til Gautaborgar vegna skorts á sjúkraflugvélum til taks og mannskap til að fljúga honum út.

Móðir Jóns Eiðs, Jóhanna S. Daðadóttir, upplýsti Akureyri.net um það hve litlu mátti muna að Jón Eiður yrði of seinn til að geta nýtt lungað sem honum bauðst síðastliðinn föstudag.

Gekk erfiðlega að útvega sjúkraflug

Hann hafði dvalið á Landspítalanum í Fossvogi síðan í júní, en fékk heimfararleyfi síðastliðinn föstudag. Hann hafði verið heima hjá sér á Akureyri í um þrjá tíma þegar hringingin kom um kl. 15:30, lunga tilbúið til ígræðslu á sjúkrahúsinu í Gautaborg. Þá var brunað inn á Akureyrarflugvöll, en þar var enginn viðbúnaður og ekki vitað hvað var í gangi. Í ljós kom að erfiðlega gekk að redda sjúkraflugi fyrir hann með hefðbundnum leiðum því miklar annir voru í sjúkraflugi þennan dag og mannskapurinn hugsanlega búinn með flugtímann, eins og Jóhanna orðaði það í samtali við Akureyri.net.

Þá var brugðið á það ráð að leita til áhafnar TF-SIF eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, til að annast sjúkraflutninginn til Gautaborgar. Þeir gátu sem betur fer tekið verkefnið að sér og reddað málunum á ögurstundu. Jóhanna rifjar í leiðinni upp að í fyrra þegar svipað atvik varðandi mönnun kom upp hafi hún haft á orði að vonandi yrði ekki sama uppi á teningnum þegar Jón Eiður þyrfti á flugi að halda. Það er nefnilega bara spurning um örfáar klukkustundir að komast á staðinn til að geta nýtt lungað sem beið þess að vera grætt í hann. Hún minnir líka á að til hafi staðið að selja þessa flugvél.

Þrjá tíma heima, fjóra á flugvellinum, fjóra tíma út

Eftir rúmlega fjögurra tíma bið var loksins komið að fluginu út, sem tók aðra fjóra tíma eða rúmlega það. Flugvélin lenti í Gautaborg um miðnættið á íslenskum tíma og þar var allur viðbúnaður klár, sjúkrabíll sem beið og flutti hann beint á sjúkrahúsið og þar tók við níu tíma aðgerð sem hófst um klukkan tvö aðfararnótt laugardags.

Aðspurð um ástæður lungnaígræðslunnar segir Jóhanna að Jón Eiður hafi veikst fyrir um 4-5 árum síðan af mjög sjaldgæfum lungnasjúkdómi (PPFE), en hann er sá eini á Íslandi sem hefur verið greindur með þennan sjúkdóm og aðeins um 100-200 manns í heiminum hafi orðið fyrir barðinu á honum. Það tók í fyrsta lagi langan tíma að greina hvað var að og ekki hægt með óyggjandi hætti að kveða upp úr um orsökina. Líklegast er þó talið að hann hafi andað að sér einhverjum efnum, rykögnum eða myglu í störfum sínum sem smiður sem hafði þessar afleiðingar.

Heillar heilbrigðisstarfsfólkið

Jón hefur heillað heilbrigðisstarfsfólkið á sjúkrahúsinu í Gautaborg. Aðgerðin gekk mjög vel og honum heilsast vel. Jóhanna segir hann hafa farið á fætur á fyrsta degi, nokkrum tímum eftir aðgerð, enda hafi hann alltaf verið hraustur að upplagi.

Íris Berglind Clausen, eiginkona Jóns Eiðs, sem er með honum í Gautaborg, segir í stuttum pistli á Facebook á mánudag að honum hafi gengið vonum framar fyrstu tvo sólarhringana. „Hann er draumasjúklingur allra því hann er svo jákvæður og duglegur. Í dag losnaði hann við helling af slöngum og snúrum og fékk að yfirgefa gjörgælsudeildina og fara yfir á transplantdeildina. Hann er mjög þreyttur, en berst áfram í öllu sem hann er að gera til að ná að þenja út og virkja lungun. Þetta er allt saman hörkuvinna fyrir hann, en hann er staðráðinn í að leggja sig allan fram til að ná góðum bata og ná sem mestu út úr þessum nýju lungum sem honum voru gefin.“

Kleinusala til fjáröflunar

Eins og gefur að skilja fylgir slíkri aðgerð mikill kostnaður enda er um að ræða margra mánaða ferli. Fjölskylda Jóns Eiðs, með Jóhönnu S. Daðadóttur móður hans í fararbroddi, hefur sett af stað söfnun til að létta undir með Jóni Eiði og fjölskyldu við að kljúfa þann kostnað sem þessu fylgir. Aðgerðin gekk vonum framar og Jóni Eiði heilsast vel að sögn móður hans. Hún segir hann hafa heillað Svíana og ætli alla leið.

Helgina 16.-17. september verður fjölskyldan í kaffihúsi Amtsbókasafnsins – gengið inn að norðanverðu, ekki um aðalinngang – að steikja bæði kúmenkleinur, með eyfirsku kúmeni, og hefðbundnar kleinur. Jóhanna hefur deilt mynd af Jóni Eiði ásamt þessum upplýsingum á Facebook-síðu sinni þar sem hún tekur við pöntunum og segir þar að hún sé nú þegar byrjuð að steikja og setja í frost. Þeim sem vilja styðja fjölskylduna gefst kostur á að kaupa 400 gr. poka á 1.500, en Jóhanna tekur fram að auðvitað sé heimilt að greiða meira fyrir pokann.

Í framhaldinu stefna þau svo að því að vera með kleinusölu á Grenivík í kringum næstu mánaðamót.

Einnig er hægt að styrkja fjölskylduna með beinu fjárframlagi inn á reikning 1187-05-250306, kt. 0508755399.