Fara í efni
Fréttir

Jóhannes kaupir 67% hlut í Erni með Mýflugi

Mýflug keypti í vikunni ráðandi hlut, 67,11%, í flugfélaginu Erni, ásamt öðrum fjárfesti, eins og það hefur verið orðað í fréttum. Akureyri.net getur nú upplýst að þar er á ferðinni Jóhannes Kristinsson, fjárfestir í Lúxemborg, sem hefur verið viðriðinn flugheiminn í áratugi og var um tíma meirihlutaeigandi lággjalda flugfélagsins Iceland Express.

Mýflug sinnir bæði leiguflugi og útsýnisflugi en lang stærstur hluti starfseminnar er þó sjúkraflug. Mýflug sinnir öllu sjúkraflugi innanlands samkvæmt samningi við ríkisvaldið og hefur gert síðan 2006. Sjúkraflugvél félagsins er í viðbragðsstöðu á Akureyrarflugvelli allan sólarhringinn allt árið um kring.

Ernir heldur uppi áætlunarflugi á milli Reykjavíkur og Hornafjarðar, átta sinnum í viku, og milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja þrisvar í viku, á báða staði samkvæmt samningi við Vegagerðina. Einnig býður félagið upp á áætlunarflug milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Ekki stendur til að sameina Mýflug og Erni og mun hvort félag sinna sömu verkefnum og hingað til.