Fara í efni
Fréttir

Jenný sæmd riddakrossi fálkaorðunnar

Jenný Karlsdóttir, handverkskona og kennari, og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. Mynd: forsetaembættið.

Jenný Karlsdóttir, handverkskona og kennari á Akureyri, var ein 14 Íslendinga sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag. Jenný fékk riddarakross fyrir framlag til varðveislu íslenskrar alþýðu- og handverksmenningar.

Athygli vakti í maí þegar Jenný afhenti Safnasafninu á Svalbarðsströnd ævistarf sitt formlega, safn með alls 2500 textílverkum. Við sama tækifæri var Jennýjarstofa opnuð í Safnasafninu en þar verða munir úr safni Jennýjar til sýnis.

„Þetta er eins og að sjötta barnið mitt sé að að hleypa heimdraganum. Ég er mjög ánægð með að Safnasafnið, sem er stórkostlegt safn, falaðist eftir þessu hjá mér,“ segir Jenný í viðtali við Akureyri.net á sínum tíma. Jenný hefur safnað handverki og munstrum alla sína tíð og lagt áherslu á alþýðuhandverk frá síðustu öld, muni sem fólk notaði til nytja og prýði á sínum heimilum.

Bláókunnugir komið til hennar gersemum

Snæfríður Ingadóttir ræddi við Jennýju fyrir Akureyri.net. „Mikið af þessu var unnið í húsmæðraskólum landsins. Ég hef aðallega keypt þessa muni á nytjamörkuðum. Ég fór til að mynda mikið í Kolaportið hér áður fyrr og Rauði Krossinn hefur verið mjög gjöfull. Svo hefur fólk verið að koma með allskonar handverk til mín í gegnum tíðina, oft bráðókunnugt fólk, fólk sem er að minnka við sig og veit ekki hvað það á að gera við ýmislegt sem er því mikils virði en veit að því verður bara hent þegar það fellur frá,“ sagði Jenný meðal annars. „Ég hef alla tíð lagt mikla vinnu í að láta þetta handverk líta vel út. Ég hef þvegið heilmikið og straujað heil ósköp. Það er ekki hægt að ætlast til þess að ungt fólk fái áhuga á mórauðri tusku sem er þó kannski dýrgripur hvað snertir handverk. Því hef ég lagt mig fram við að ganga fallega frá þessu, hvað svo sem forverðir segja um það.“

Smellið hér til að lesa viðtal Snæfríðar Ingadóttur við Jennýju Karlsdóttur.

Orðuhafar ásamt forsetahjónunum á Bessastöðum 1. janúar.

Smellið hér til að sjá frétt á vef forsetaembættisins um orðuveitingarnar á nýársdag.