Fara í efni
Fréttir

Íþyngjandi kvöð á hafnir án stuðnings

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Akureyrarhafna. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Stjórn Hafnasambands Íslands hefur sent frá sér bókun þar sem úthlutun úr Orkusjóði er gagnrýnd harðlega þar sem öllum umsóknum um styrki vegna almennra landtenginga fyrir fiskiskip og uppsetningar á búnaði á hafnarsvæðum til að landtengja farþegaskip og önnur aflfrek skip hafi verið hafnað.

Í ályktuninni segir meðal annars: „Ekki er hægt að líta á afstöðu Orkusjóðs með öðrum hætti en að uppbygging landtenginga á hafnarsvæðum sé hvorki forgangsmál stjórnvalda né skipti miklu í þeim mikilvægu orkuskiptum sem þjóðin stendur frammi fyrir, þrátt fyrir að lagt hafi verið upp með að þriðjungur af þeim nær milljarði sem var til úthlutunar hafi verið eyrnamerktur verkefnum til að minnka notkun á jarðeldisnotkun í flutningum og siglingum.“

Vonbrigði fyrir Akureyrarhafnir

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, segir niðurstöðu Orkusjóðs vera mikil vonbrigði þar sem þung áhersla hafi verið á að tengja sem flest skip, en því miður sé lítill sem enginn stuðningur við það verkefni. Hann nefnir sem dæmi að hver lítil tenging, fyrir litlu skipin, kosti á bilinu 300-500 milljónir króna og stór tenging fyrir allra stærstu skipin kosti um 1,5 milljarða. Það tímabil sem skemmtiferðaskipin eru á ferðinni hér er mjög stutt og heilsársnýting því ekki mjög mikil. Skortur á stuðningi stjórnvalda flýti að minnsta kosti ekki fyrir verkinu.

Í bókun stjórnar Hafnasambands Íslands er bent á að auk þessarar niðurstöðu varðandi umsóknir um styrki úr sjóðnum hafi verið sett sú kvöð á hafnir sem tilheyra evrópska flutningsnetinu að ljúka landtengingum fyrir 2030. Það gildi um fimm íslenskar hafnir, en samkeppnishafnir íslenskra hafna hafi fengið úthlutað styrkjum til þessa úr sjóðum ESB. Ísland og Noregur greiði ekki í þessa sjóði og því eigi hafnir þessara landa ekki möguleika á að sækja um styrki þar.

„Íslenskar hafnir eru aftur á móti skildar eftir með íþyngjandi kvöð um landtengingu skipa en án fjárhagslegs stuðnings. Stjórn Hafnasambands Íslands lýsir mikilli óánægju með afstöðu Orkusjóðs og fer fram á endurskoðun hennar ellegar að breytingar verði gerðar á úthlutunarreglum sjóðsins,“ segir einnig í bókuninni.

Bókunin stjórnar Hafnasambands Íslands í heild:

Fyrir liggur að í seinustu úthlutun Orkusjóðs hafnaði sjóðurinn öllum umsóknum um styrki vegna almennra landtenginga fyrir fiskiskip og uppsetningar á búnaði á hafnarsvæðum til að landtengja farþegaskip og önnur stór og aflfrek skip. Ekki er hægt að líta á afstöðu Orkusjóðs með öðrum hætti en að uppbygging landtenginga á hafnarsvæðum sé hvorki forgangsmál stjórnvalda né skipti miklu í þeim mikilvægu orkuskiptum sem þjóðin stendur frammi fyrir, þrátt fyrir að lagt hafi verið upp með að þriðjungur af þeim nær milljarði sem var til úthlutunar hafi verið eyrnamerktur verkefnum til að minnka notkun á jarðeldisnotkun í flutningum og siglingum. Til viðbótar þeim almennu hagsmunum samfélagsins af orkuskiptum í höfnum landsins þá hefur sú kvöð verið sett á hafnir sem tilheyra evrópska flutningsnetinu (TEN-T) að ljúka landtengingum fyrir árið 2030. Fimm íslenskar hafnir tilheyra flutningsnetinu. Evrópskar samkeppnishafnir íslenskra hafna hafa fengið úthlutað styrkjum til þessa úr sjóðum ESB. Ísland og Noregur greiða hins vegar ekki í þessa sjóði og því ekki möguleiki fyrir hafnir viðkomandi landa að sækja þar um. Norskar hafnir geta hins vegar sótt styrki til landtenginga í norska orkusjóðinn Enova. Íslenskar hafnir eru aftur á móti skildar eftir með íþyngjandi kvöð um landtengingu skipa en án fjárhagslegs stuðnings. Stjórn Hafnasambands Íslands lýsir mikilli óánægju með afstöðu Orkusjóðs og fer fram á endurskoðun hennar ellegar að breytingar verði gerðar á úthlutunarreglum sjóðsins.