Fara í efni
Fréttir

Íslensk hönnun til styrktar blindum og sjónskertum

Nýtt íslenskt hönnunarstúdíó, R57, hefur gefið út veggplakatið Ástin er blind í fimm litum til styrktar Blindrafélagi Íslands. Verkefninu er ætlað að stuðla að vitundarvakningu í málefnum blindra og sjónskertra og var því gefið út á alþjóðlegum degi hvíta stafsins, segir Akureyringurinn Skúli Bragi Geirdal sem stendur á bak við verkefnið; hann hannaði plakatið og stofnaði R57 ásamt kærustunni sinni, Karlottu Halldórsdóttur, sem er hagfræðingur.

Skúli Bragi starfar hjá Fjölmiðlanefnd en margir muna eftir örugglega eftir honum af sjónvarpsstöðinni N4. Hann lærði fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri en einnig grafíska hönnun í Myndlistarskólanum á Akureyri.

„Þetta er dálítið skemmtilegur leikur með skilningarvitin því við fyrstu sýn getum við ekki lesið það sem stendur á plakatinu nema með aðstoð punktaletursstafrófsins. Það er ekki oft sem við, sem höfum góða sjón, lendum í slíkum vanda þ.e. að geta ekki lesið það sem stendur fyrir framan okkur. Plakötin minna okkur því á að það njóta ekki allir þeirra forréttinda að sjá,“ segir Skúli.

Ungt par með stóra drauma

„R57 byrjaði sem lítil sæt hugmynd í eldhúsinu okkar á Rauðalæk 57 um að stofna hönnunarstúdíó sem leggur áherslu á hönnun sem bætir það umhverfi sem við búum í og gefur af sér,“ segir Karlotta Halldórsdóttir, hinn helmingurinn af teyminu á bak við R57. „Við erum alltaf að ræða allskonar hugmyndir að vörum og nýjungum á heimilinu og létum svo loks verða að því að stofna fyrirtæki saman. Við erum með stórar hugmyndir um fleiri liti, setningar, útfærslur og nýjar vörulínur. Því má búast við fleiri vörum frá okkur á næstunni. Það getur þó verið erfitt að vera með stærri hugmyndir en tími og fjármagn leyfir en það er samt mikilvægt að leyfa sér að dreyma og setja sér háleit markmið,“ segir Karlotta.

Á myndinni til vinstri eru Karlotta Halldórsdóttir stofnandi R57 og Elfa Svanhildur Hermannsdóttir forstjóri þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Hægra megin: Skúli B. Geirdal, stofnandi R57 og Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélags Íslands

Stílhrein hönnunarvara með boðskap

Punktaletrið má finna víða í umhverfi okkar eins og t.d. í lyftum, vegvísum, á leiðbeiningarskiltum og lyfjapakkningum. Stafur á punktaletri verður að geta passað undir fingurgóm og því er upphleypt blindraletur sjaldnast áberandi. „Við höfum flest séð punktaletur af og til án þess kannski að veita því mikla eftirtekt. Við viljum lyfta punktaletrinu upp og gera það sýnilegra með því að nota það í okkar verkum. Punktaletrið á að sjálfsögðu heima í íslenskri hönnun enda órjúfanlegur hluti af umhverfi okkar og jafn mikilvægt og annað letur til að rita íslenskt mál. Þótt það sé hannað til þess að lesa með fingrum þá er það grafískt fallegt á að horfa og úr verður því stílhrein hönnunarvara með boðskap sem gefur af sér í gott málefni,“ segir Skúli.

Jafn nauðsynlegt og annað letur

Punktaleturskerfið Braille er þekkt og viðurkennt víða um heim og var lögfest hér á landi sem fullgilt íslenskt ritmál árið 2011. Letrið byggist upp á 6 punktum í tveimur lóðréttum línum sem raða má saman í 63 ólík tákn. „Ég heillaðist af einfaldleikanum í letrinu og fegurðinni í því að það sé hægt að lesa íslensku á annan hátt en með augunum. Punktaletur er blindum jafn nauðsynlegt og svartletur er fyrir sjáandi t.d. til þess að geta stundað nám, lesið sér til gagns og gamans, fyrir tómstundir og tölvunotkun,“ segir Skúli.

Veggmyndirnar eru enn sem komið er einungis til sölu á vef R57 en verða væntanlega í boði í hönnunarverslunum fljótlega.