Fara í efni
Fréttir

Ingibjörg býður sig fram til formanns í Framsókn

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, tilkynnti á Facebook-síðu sinni í morgun að hún hefði ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í flokknum. Hún er sú fyrsta sem lýsir yfir framboði en nýr formaður Framsóknarflokksins verður kjörinn á flokksþingi þann 14. febrúar nk.

Í tilkynningu sinnir segir Ingibjörg m.a. að staða flokksins kalli á breytingar og að verkefnin framundan séu ærin. Meðal annars nefnir hún bága stöðu barna og ungmenna og efnahagslegar áskoranir. Stærsta hagsmunamál heimilanna sé að koma vaxtaumhverfinu í eðlilegt horf og ná verðbólgunni niður. „Við í Framsókn förum ekki fram með háværar yfirlýsingar. Traust ávinnst ekki með því að hafa uppi gífuryrði, heldur með verkum okkar. Það er mín einlæga trú að ef við tölum skýrt og umbúðalaust, lofum engum skýjaborgum en stöndum við það sem við segjum, að þá muni fólk fylkja sér að baki okkur að nýju,“ segir Ingibjörg Isaksen m.a. í framboðstilkynningu sinni.

Ingibjörg hefur setið á þingi síðan 2021 og er núverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Þar á undan sat hún í bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar, ásamt því að hafa starfað sem kennari og framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar.