Fara í efni
Fréttir

Inga og Þórhallur loka Pedromyndum um áramótin

Það er gjarnan líf og fjör hjá Pedromyndafjölskyldunni á aðventu! Þórhallur Jónsson, Inga Vestmann og börn þeirra þrjú; Andri Már, Rebekka Rut og Axel Darri.

Eigendur Pedromynda, hjónin Þórhallur Jónsson og Inga Vestmann og fjölskylda, hafa ákveðið að loka verslun sinni við Skipagötu um áramótin. Þau hafa rekið ljósmyndavöruverslunina í miðbæ Akureyrar í 22 ár, frá árinu 2001, en þó hafa bæði starfað í Pedromyndum í tæplega 40 ár. Eldhaf og Origo opna í kjölfarið sameiginlega verslun í Pedro-plássinu.

Inga og Þórhallur keyptu reksturinn af foreldrum hennar, þeim Friðriki Vestmann og Guðrúnu Hjaltadóttur, sem stofnuðu Pedromyndir árið 1965. Fyrirtækið er því 58 ára gamalt og með þeim elstu á Akureyri. Þetta eru því svo sannarlega tímamót.

Ákváðum að slá til

„Við fengum tækifæri sem var ekki hægt að sleppa. Öflugir aðilar voru að leita að húsnæði fyrir verslun í miðbænum og föluðust eftir okkar húsnæði,“ segir Inga, spurð hvernig það hafi komið til að þau hjón ákváðu að láta gott heita.

„Eftir miklar vangaveltur ákváðum við að slá til og leigja húsnæðið þannig að verslun Eldhafs á Glerártorgi mun færa sig að Skipagötu 16 og opna þar í sameiningu við Origo, verslun ásamt söluskrifstofu fyrir fyrirtækjamarkað.“

Inga segir að sjálfsögu miklar tilfinningar fylgja ákvörðun sem þessari. „Ég þekki ekkert annað en að alast upp með Pedro, og börnin mín ekki heldur. Börnin okkar Þórhalls byrjuðu snemma að hjálpa til og gera enn þegar jólatörnin skellur á. Það hefur okkur alltaf fundist alveg ómetanlegt og þau hafa öll sagt að það er okkar jólaundirbúningur að vera á kafi í Pedro fram á aðfangadag!“

Að vinna saman

„Ég hef stundum verið spurð hvernig í ósköpunum ég geti unnið með manninum mínum. Ég ólst upp við það sjálf að foreldrar mínir unnu alltaf saman í fyrirtækinu svo ég þekki ekkert annað. Okkar samstarf hefur alltaf gengið upp en að sjálfsögðu erum við ekki alltaf sammála og þá reynum við að ræða málin og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Við erum búin að upplifa margar sveiflur í rekstrarumhverfinu á þessum 22 árum og það er ekki hægt að segja annað en að við séum reynslunni ríkari fyrir vikið,“ segir Inga.

Framtíðin

„Við hjónin ætlum að njóta þess að taka okkur langt frí á nýju ári. Þegar maður er í eigin rekstri þá eru ekki mörg tækifæri fyrir löng sumarfrí. Við eigum 4 barnabörn svo það er nóg að gera í ömmu- og afahlutverkinu,“ segir Inga. „Þórhallur mun þó áfram starfa við ljósmyndun ásamt Axel syni okkar. Þeir feðgar stefna á að taka áfram myndir fyrir fyrirtæki eins og þeir hafa gert fram til þessa.“

Fjölskyldan í Pedromyndum vill koma á framfæri kæru þakklæti til viðskiptavina nær og fjær fyrir tryggðina í gegnum árin. „Við horfum björtum augum á framtíðina,“ segir Inga Vestmann.