Fara í efni
Fréttir

Hvers vegna er hún ekki sjálfsögð, þverpólitíkin?

Stefán Þór Sæmundsson, kennari og rithöfundur, skrifar um „þverpólitíska sátt“ í pistli sem birtist á Akureyri.net í dag. Þegar slík sátt náist sé því „gjarnan slegið fram sem einhverju nánast óhugsandi,“ og hann veltir fyrir hvers vegna svo sé.

Stefán segist svo mikið „(flokks)pólitískt viðrini“ að hann fór ekki á alvöru kosningabaráttufund fyrr en hjá Katrínu Jakobsdóttur á Hótel KEA, líklega 2017. „Skoðanakannanir bentu til að nú væru tveir turnar, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn og allir æptu á annað hvort vinstri eða hægri stjórn. Ég, algjörlega grænn í þessum bransa, stóð upp á fundinum og spurði Katrínu hvort ekki væri lag að stefna að stjórn sem næði yfir litrófið, myndaði brú yfir boðaföllin ...“

Síðan segir hann: „Já, ég veit. Þetta var barnalegt. Ég seig niður í sætið á ný. Vinstra liðið horfði á mig með óbeit. Orð mín voru svik við málstaðinn. Samvinna félagshyggju og frjálshyggju var víst ekki til í neinum fræðibókum og voru og áttu að vera ósamrýmanlegar andstæður. Skotgrafirnar máttu ekki breytast.“

En viti menn. Mynduð var stjórn „þvert yfir miðjuna. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn með Framsókn í miðju og meint stjórnarandstaða vissi ekki í hvorn fótinn hún átti að stíga.“

Stefán segir að sennilega „höfum við þó lítið lært. Við köllum ráðamenn okkar barnamorðingja, dýraníðinga, útlendingahatara, auðvaldssinna, fífl og fávita og kennum þeim um allt sem miður fer, hefur farið eða gæti hugsanlega farið.“

Smellið hér til að lesa pistil Stefáns Þórs