Fara í efni
Fréttir

Hver er raunverulegur tilgangur sameiningar?

„Eftir langdregnar sameiningarþreifingar milli Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst á enn eftir að svara grundvallarspurningum um raunverulegan tilgang, fjárhagslegan grundvöll og menntapólitískar forsendur sameiningar.“

Þetta segir Guðmundur Ævar Oddsson, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, í ítarlegri grein sem birtist á Vísi í morgun og Akureyri.net síðdegis.

Guðmundur telur einsýnt að ef ekki fáist fljótt skýr svör við helstu spurningum eigi að falla frá frekari sameiningarþreifingum og að Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst verði leyft að vaxa og dafna áfram á eigin forsendum. Glapræði væri að renna blint í sjóinn með sameiningu háskólanna þegar jafn mikið sé í húfi og raun beri vitni. 

„Gamalgróin tenging og táknræn staðfesting“

Fjallað hefur verið um það í fréttum undanfarið að það sé ófrávíkjanleg krafa að tekið verði upp nýtt nafn, verði skólarnir sameinaðir. Guðmundur segist skilja vel að bæjarráð Akureyrarbæjar, stúdentar við HA, starfsmenn og fleiri vilji standa vörð um nafnið „Háskólinn á Akureyri“.

Hann segir: „Nafnið er gamalgróin tenging og táknræn staðfesting á því að háskólinn sé staðsettur á Akureyri og að Akureyri sé háskólabær. Háskólinn á Akureyri var stofnaður sem slíkur og hefur aldrei heitið annað. Ólíkt Háskólanum á Bifröst sem stofnaður var og starfræktur í Reykjavík í tæpa fjóra áratugi áður en skólinn fluttist á Bifröst í Borgarfirði á 6. áratugnum og hefur heitið fjórum mismunandi nöfnum frá stofnun.“

Þegar öllu er á botninn hvolft, segir Guðmundur, „er þó enn mikilvægari spurningum ósvarað heldur en nafn mögulegs sameinaðs háskóla. Fyrsta spurningin er augljós: Hver er raunverulegur tilgangur þess að sameina þessa háskóla? “

Mikilvægasta spurningin hverfist hins vegar um hvort hægt sé að sameina starfsemi opinbera háskólans HA og einkaskólans Bifrastar þannig að ekki komi niður á gæðum náms og rannsóknavirkni og aðgengi að háskólanámi almennt.

Grein Guðmundar: Greinin vex í þá átt sem hún er beygð