Fara í efni
Fréttir

Hvatningarverðlaun fyrir bókaklúbbinn

Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir, verkefnastjóri hringrásarverkefnis, ungmennastarfs og spiladeildar á Amtsbókasafninu á Akureyri. Mynd af vef Amtsbókasafnsins.

Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir, verkefnastjóri hringrásarverkefnis, ungmennastarfs og spiladeildar á Amtsbókasafninu á Akureyri, tók í gær við Hvatningarverðlaunum Upplýsingar sem veitt eru annað hvert ár á Bókasafnsdaginn, 8. september, sem er alþjóðlegur dagur læsis. Verðlaunin eru í ár veitt fyrir bókaklúbb ungmenna, valgrein á unglingastigi í grunnskólum Akureyrar.

„Að mati dómnefndar í ár er verkefnið dæmi um hvernig bókasafn getur orðið lifandi menningarvettvangur fyrir ungmenni og stuðlað að lestraráhuga á þeirra eigin forsendum,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar. „Með skapandi nálgun og fjölbreyttum aðferðum tekst starfsmönnum Amtsbókasafnsins að gera lestur og bókmenntir bæði aðgengilegar og spennandi fyrir nemendur í 8.–10. bekk.“

  • Upplýsing er fagfélag á sviði bókasafns- og upplýsingafræða, m.a. með það að markmiði að gangast fyrir faglegri umræðu, efla skilning á mikilvægi íslenskra bókasafna og upplýsingamiðstöðva í þágu menningar, menntunar og vísinda og efla samvinnu þeirra.
  • Verðlaunin eru veitt starfsmönnum og starfsstöðum (eða hvorum tveggja) „fyrir einstök verkefni er stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi á bókasöfnum,“ segir í tilkynningu frá Upplýsingu, fagfélagi á sviði bókasafns- og upplýsingafræða.“

Í umsögn um bókaklúbbinn segir: „Markmið verkefnisins eru skýr: að efla lestraránægju, skapa jákvæðar bókatengdar upplifanir og bjóða upp á vettvang þar sem ungmenni geta bæði tjáð sig og mótað dagskrána sjálf. Þetta er mikilvægt framlag til lýðræðislegrar þátttöku nemenda í námi og menningu.“

Til fyrirmyndar

Einnig segir að framkvæmdin sé fjölbreytt og frumleg. „Verkefnið blandar saman hefðbundnu lesklúbbsspjalli og nýstárlegum leiðum eins og „hraðstefnumótum“ við bækur, bókabíói, smiðjum og leikjum sem tengjast lestri. Með því að tengja bókmenntir við handverk, matargerð og samfélagsmiðla (booktok) er byggt á áhugasviðum ungmenna og þannig opnað fyrir nýjar leiðir til þátttöku.“

Dómnefndin bendir á að ungmennin taki virkan þátt í að móta dagskrá, sem auki bæði eigið vald og ábyrgð á verkefninu. „Bókaklúbburinn sýnir hvernig bókasöfn geta sameinað menningu, sköpun og samfélagsþátttöku í einu verkefni. Það virkar bæði hvetjandi og skemmtilegt, eflir félagsfærni jafnt sem lestrarvenjur og er ekki bara verðugt og til fyrirmyndar fyrir önnur bókasöfn og skólasamfélög heldur er því deilt út til okkar hinna af örlæti og gleði. “

Mikilvægið óumdeilt

Bókasafnsdagurinn er dagur þeirra sem starfa á bókasöfnunum. Mikilvægi lesturs og læsis er óumdeilanlegt, segir á vef Upplýsingar. „Bókasöfnin eru einn af hornsteinum lestrarmenningar Íslands og þess vegna leggjum við áherslu á læsi í slagorði bókasafnsdagsins: Lestur er bestur.“

Markmið bókasafnsdagsins er tvíþætt:

  • Að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu.
  • Að vera dagur starfsmanna safnanna.

Þema dagsins í ár er Lestur er bestur fyrir sálina, segir á vef Upplýsingar og markmiðið með  verðlaununum er þríþætt:

  • Veita starfsfólki bókasafna jákvæða hvatningu í starfi.
  • Vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer á vegum bókasafna.
  • Stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi.

Fyrstu Hvatningarverðlaun Upplýsingar voru veitt árið 2019 og má lesa nánar um þau hér.

Vert er að nota tækifærið og vekja athygli á því að starfsmenn Amtsbókasafnsins á Akureyri skiptast á að mæla vikulega með áhugaverðri bók á Akureyri.net. Pistill þeirra birtist alla þriðjudaga – hér er hlekkur á þá skemmtilegu umfjöllun:

Af bókum