Fara í efni
Fréttir

Húseign og rekstur Kristjánsbakarís til sölu

Fasteignin Hrísalundur 3 hefur verið auglýst til sölu, en það er rúmlega 1.900 fermetra iðnaðar- og verslunarhúsnæði sem hýsir rekstur og verslun Kristjánsbakarís. Fram kemur í auglýsingunni að möguleiki sé á að kaupa reksturinn og tæki til reksturs iðnaðarbakarís.

Bakaríið og verslanir þess ganga í daglegu tali undir heitinu Kristjánsbakarí, en Brauðgerð Kr. Jónssonar var stofnuð á Akureyri 12. júní 1912 af Kristjáni Jónssyni. Gæðabakstur ehf. í Reykjavík keypti Kristjánsbakarí árið 2015, en þá var það eitt af elstu fjölskyldufyrirtækjum landsins með um 103ja ára sögu í samfelldri eigu þriggja ættliða, að því er fram kom í frétt á mbl.is þegar kaupin áttu sér stað.


Húseignin Hrísalundur 3 sem nú er til sölu er um 1.900 fermetrar að stærð.

Bræðurnir Birgir og Kjartan Snorrasynir, sonarsynir stofnandans, héldu áfram rekstri brauðgerðarinnar í óbreyttri mynd fyrst eftir að Gæðabakstur kom inn í reksturinn. Kristjánsbakarí og Gæðabakstur sameinuðust undir einum hatti 2016.

Áskoranir í rekstrinum á Akureyri

Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, segir áhuga hafa komið fram og þeir fengið fyrirspurnir um reksturinn, en ýmislegt komi til greina.

Afkoma rekstrareiningarinnar á Akureyri hefur ekki verið eins og best verður á kosið, en Vilhjálmur segir aðalatriðið að vinna að því af yfirvegun að bæta reksturinn. Hann leggur áherslu á að fyrirtækið hafi ekki ákveðið að hætta rekstri á Akureyri því þar sé úrvalsgott starfsfólk, yfir 30 störf, og mikilvægt að halda þeim störfum. Því séu menn rólegir og vinni að því að koma rekstrinum í betra form og vilji gera allt til að halda þessum störfum á Akureyri.

Meðal þess sem gæti orðið ofan á er að fá inn nýjan meðeiganda til að hafa umsjón með rekstrinum á Akureyri því Vilhjálmur segir ákveðnar áskoranir fólgnar í rekstrinum, til dæmis að fjarstýra rekstrinum að sunnan. Í því sambandi má einnig nefna að fyrirtækið er að missa öflugan liðsmann, Ingólf Gíslason, sem hefur verið rekstrarstjóri á Akureyri.

Vilhjálmur segir Gæðabakstur vera mjög sterkt félag í heild, en reksturinn á Akureyri er um 20% af heildarveltu félagsins.

 

Brauðgerð Kristjáns rekur brauðbúð nyrst í göngugötunni. 

Frumkvöðlar í vélvæðingu og tækninýjungum

Um sögu bakarísins segir meðal annars á vef þess, braudgerd.is:

„Fyrst í stað var bakaríið til húsa að Strandgötu 41 á Akureyri, sem jafnframt var heimili Kristjáns, en var síðar flutt tveimur húsum ofar við götuna, í Strandgötu 37. Kristján stóð sjálfur í rekstrinum í rúma fjóra áratugi eða allt þar til Snorri sonur hans tók við árið 1958.

Snorri var að mörgu leyti frumkvöðull í rekstri brauðgerða hérlendis svo sem í vélvæðingu og ýmsum tækninýjungum og enn þann dag í dag er Brauðgerð Kr. Jónssonar í fararbroddi hvað þetta varðar. Snorri rak brauðgerðina með miklum myndarbrag og eftir því sem árin liðu komu synir hans fjórir, þeir Kristján, Júlíus, Birgir og Kjartan, til liðs við hann.

Árið 1989 keyptu tveir þeir síðastnefndu hlut bræðra sinna og nokkru seinna hlut föður síns. Frá þeim tíma er fyrirtækið í eigu Birgis og Kjartans Snorrasona sem stýra rekstrinum í sameiningu. Mun Brauðgerð Kr. Jónssonar vera eitt elsta iðnfyrirtæki landsins sem frá upphafi hefur verið í eigu sömu fjölskyldu, sem fyrr segir.“