Fara í efni
Fréttir

Húsasmiðjan flyst frá Lónsbakka í Freyjunes

Húsamiðjan verður á svæðinu sem þarna sést á milli Bílasölu Akureyrar, neðst á myndinni, og verktaka…
Húsamiðjan verður á svæðinu sem þarna sést á milli Bílasölu Akureyrar, neðst á myndinni, og verktakafyrirtækisins G Hjálmarssonar. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Verslun Húsasmiðjunnar flyst á síðari hluta næsta árs frá Lónsbakka í nýtt húsnæði sem reist verður við Freyjunes. Framkvæmdir standa yfir á svæðinu, jarðvinna er langt komin og eftir útboð í haust var samið við Tréverk um uppsteypu sökkla. Sú vinna er að hefjast.

„Þetta verður glæsileg Húsasmiðju- og Blómavalsverslun ásamt því að rafiðnarheildsalan Ískraft mun jafnframt opna í sama húsnæði. Verslunin verður um 5.000 fermetrar,“ segir Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, við Akureyri.net.

„Allt hefur sinn tíma, Húsasmiðjan á langa sögu á Lónsbakka en við sjáum tækifæri í að flytja starfsemina í nýtt húsnæði þar sem meðal annars verður innangengt í timbursöluna og staðsetning nýju lóðarinnar er frábær. Þarna verður glæsileg verslun, sérhönnuð út frá þörfum viðskiptavina okkar, og við erum sannfærð um að Akureyringar og nærsveitungar muni fagna nýju versluninni og því aukna vöruúrvali sem þar verður,“ segir Árni Stefánsson.