Fara í efni
Fréttir

„Húrra! þetta var æðisleg tilfinning“

Ute Helme Stelly fær fyrstu sprautuna á Akureyri í dag. Bryndís Þórhallsdóttir sprautaði hana. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ute Helme Stelly, íbúi í dvalarrými á Hlíð, var sprautuð fyrst allra Akureyringa gegn Covid-19 klukkan rúmlega 2 í dag. Ute er 78 ára. Hún útskrifaðist sem hjúkrunarkona árið 1962 og starfaði í áratugi við fagið; á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, á Hlíð, þar sem hún býr í dag, á Kristnesi og á Skjaldarvík þar sem rekið var elliheimili um árabil.

Hún var ekki í vafa þegar henni bauðst að fá fyrstu sprautuna á Akureyri. „Já, ég hrópaði bara húrra! Ég man vel eftir því þegar engin bóluefni voru til fyrir barnaveiki, lömunarveiki, hettusótt, mislingum og fleiru og við horfðum upp á börnin deyja! Heldurðu að ég segi ekki halleljúa í hvert einasta skipti sem ég sé nýtt bóluefni? Ó, jú.“

Og eftir að hún hafði fengið bóluefnið var Ute hæstánægð. „Húrra! Þetta var æðisleg tilfinning,“ sagði hún og brosti.

Ute segist ekki skilja foreldra sem enn í dag neiti að láta bólusetja börn sín. „Mér finnst það sorglegt. Það fólk hefur örugglega ekki séð börn deyja. Ég vona að hver einasti Íslendingur vilji láta bólusetja sig núna.“

Það var Bryndís Björg Þórhallsdóttir, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður hjá stofnuninni, sem sprautaði Ute.