Fara í efni
Fréttir

„Hugsunarleysið oft með miklum ólíkindum“

Bílstjórar skólabíla SBA - Norðurleiðar lenda iðulega í vandræðum við skóla og íþróttahús bæjarins vegna þess að aðrir ökumenn leggja ólöglega. Þetta segir einn bílstjóra fyrirtækisins sem sendi Akureyri.net meðfylgjandi myndir í dag.

SBA - Norðurleið sér um að aka börnum úr skólum í sund og á íþróttaæfingar. Maðurinn segir vandræði bílstjóranna ekki stafa eingöngu af því að bílum sé illa eða ólöglega lagt heldur sé hönnun bílastæða víða slæm með tilliti til stórra farartækja. Það er raunar ekki undarlegt því flest íþrótta- og skólamannvirki bæjarins  voru hönnuð löngu áður en slíkur akstur með börn var tekinn upp. En virði fólk reglur, segir hann, ætti allt að geta gengið nokkuð vandræðalaust fyrir sig.  

Af hverju bakkarðu ekki?

Aðstaðan er verst við Lundarskóla, að sögn bílstjórans og þar var hún óvenju slæm í dag vegna fjölda bíla. Hvíta jeppanum á neðri myndinni var t.d. lagt þannig við skólann að ekki var mögulegt að aka rútunni framhjá honum. „Við urðum að bíða eftir að því að bílstjórinn væri sóttur og krakkarnir hafa sennilega misst af 10 mínútum af íþróttaæfingunni.“ 

Það sem fer ekki síst í taugarnar á bílstjórunum er virðingarleysið sem ökumenn sýna samborgurum sínum með þessu háttalagi. „Ég var spurður að því síðast í dag hvort við gætum ekki bara bakkað. Svarið var nei; við bökkum ekki svona stórum bílum á skólalóðum. Ég held að allir geri sér grein fyrir því hvers vegna við viljum ekki gera það.“

Senda myndir til lögreglu

Efri myndin var tekin í dag á stæðinu milli Íþróttahallarinnar og Brekkuskóla, steinsnar frá Sundlaug Akureyrar. Rauða bílnum er lagt við hlið borða sem ku merkja að þar megi ekki leggja! Bílstjóri SBA - Norðurleiðar sem Akureyri.net ræddi við í dag átti í miklum erfiðleikum með að taka U-beygju á þessum stað og segir algengt að menn skilja bíla sína eftir við umrætt merki og önnur sem gefa til kynna að þar sé óheimilt að leggja.

„Hugsunarleysið er oft með miklum ólíkindum,“ segir hann og bætir við að bílstjórar fyrirtækisins séu farnir að grípa til þess ráðs að taka myndir sem þessar og senda til lögreglu með von aðgerðir.