Fara í efni
Fréttir

Hríseyjarhátíðin mjög vel heppnuð í blíðunni

Ljósmyndir: Ingólfur Sigfússon.

Hríseyjarhátíð var haldin á laugardaginn í blíðskaparveðri og þóttist heppnast mjög vel. Ferðamálafélag Hríseyjar hefur staðið fyrir hátíðinni árlega síðan 1997, nema hvað henni var frestað í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins og því kom ekki á óvart að margir sýndu hátíðinni áhuga nú. Frá fimmtudegi til sunnudags fóru 1164 með ferjunni út í Hrísey, sem til gamans má geta að er um tífaldur íbúafjöldi í eynni yfir vetrartímann! Þá hafa um 110 fasta búsetu í Hrísey.

Á föstudeginum voru óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna og fjölbreytt dagskrá á laugardeginum, þar sem myndaðist skemmtileg stemning í sannkölluðu eyfirsku sumarveðri.

„Á laugardeginum ómaði hátíðarsvæðið af tónlist og gátu viðstaddir notið ýmissar afþreyingar. Allt sumarið er á svæðinu aparóla, ærslabelgur, minigolf brautir og pönnufótboltavöllur en yfir helgina bættum við inn tveimur ringó völlum, sápufótbolta velli, krikket braut og tveimur máluðum völundarhúsum,“ segir Ingólfur Sigfússon, formaður hverfisnefndar Hríseyjar. „Ringó er skemmtileg íþrótt svipuð blaki nema hvað tveimur gúmmíhringjum er kastað yfir netið. Völundarhúsin eru þannig að farið er inn á einum stað en fólk þarf að komast aftur út, annars vegar með því að beygja ekki til vinstri, hins vegar með því að fara til skiptis yfir bláa og rauða línu.“

Garðakaffi var í fimm görðum þar sem Hríseyingar buðu gesti velkomna í kaffi og með því. Í garði hjónanna Svanhildar Daníelsdóttur og Gunnars Jónssonar var til dæmis boðið ýmislegt smakk úr rabarbara, sem þau rækta í eynni. Á Verbúðinni 66 var málverkasýning og nemendur Hríseyjarskóla voru með hamborgarasölu til styrktar ferðasjóði. Hljómsveitin Poppvélin tróð upp á sviðinu ásamt Haffa Haff.

Ákveðið var að hafa hátíðina minni í sniðum en undanfarið, að sögn Ingólfs, til dæmis var ekki kvöldvaki heldur krakkadiskó. Hátíðinni lauk svo með varðeldi, brekkusöng og flugeldasýningu í boði Björgunarsveitar Hríseyjar.

Ingólfur Sigfússon var á ferð og flugi með myndavélina og gefur hér lesendum Akureyri.net sýnishorn af skemmtilegri stemningu á Hríseyjarhátíðinni.