Fara í efni
Fréttir

Hreiðar, Ingibjörg Anna og Ívar heiðruð

Hreiðar Jónsson, Ingibjörg Anna Sigurðardóttir og Ívar Sigmundsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hreiðar Jónsson, Ingibjörg Anna Sigurðardóttir og Ívar Sigmundsson hlutu í dag heiðursviðurkenningu frístundaráðs Akureyrar fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta og heilsueflingar. Viðurkenningarnar eru jafnan afhentar á samkomu þar sem kjöri íþróttafólks Akureyrar er lýst, en vegna samkomutakmarkana og sóttvarnarreglna var brugðið frá þeirri venju að þessu sinni. Íþróttafólk ársins 2020 verður heiðrað síðar í dag.

Heiðursviðurkenningar þessar voru fyrst afhentar árið 1992, þá í nafni íþróttaráðs Akureyrar, en á vegum frístundráðs Akureyrar frá 2016.

Ellert Örn Erlingsson, forstöðumaður íþróttamála á Akureyri, fjallaði um þremenningana áður en þeir voru heiðraðir.

Hreiðar Jónsson

  • Hreiðar Jónsson er fæddur á Akureyri 23. nóvember árið 1933.
  • Á sínum yngri árum stundaði Hreiðar frjálsar íþróttir af kappi. Hann var afreksmaður á því sviði og átti Hreiðar þó nokkur Íslandsmet og Íslandsmeistaratitla í hlaupum.
  • Eftir keppnisferilinn snéri Hreiðar sér að þjálfun frjálsíþróttafólks í fjöldamörg ár. Hreiðar var einnig handboltaþjálfari um nokkurra ára skeið og var m.a. þjálfari  meistaraflokks Þórs þegar liðið komst í fyrsta skipti upp í efstu deild árið 1972, fyrst Akureyrarliða.
  • Hreiðar starfaði daglega með og í hringiðu íþróttalífs á Akureyri í rúma þrjá áratugi sem vallarvörður á Akureyrarvelli og sem starfsmaður í Íþróttaskemmunni. Hreiðar var í byggingarnefnd KA árið 1975 þegar fyrsti völlurinn var gerður á Lundartúni. Hreiðar sat í Íþróttaráði Akureyrarbæjar á árunum 1978 til 1986.
  • Fyrir störf sín og framlag í frjálsum íþróttum og handbolta á Akureyri hefur Hreiðar hlotið silfurmerki KA og silfurmerki ÍBA.

Ingibjörg Anna Sigurðardóttir

  • Ingibjörg Anna Siguðardóttir er fædd á Akureyri 24. apríl 1955.
  • Árið 2014 hóf Ingibjörg að stunda daglega virka daga vatnsleikfimi í Sundlaug Akureyrar sér til heilsubótar.
  • Skipulagið og framtakið hjá Ingibjörgu fór fljótt að vekja athygli og áhuga fleiri sundlaugargesta og verkefnið vatt uppá sig.
  • Núna rúmlega 6 árum síðar hefur þetta frábæra sjálfboðaliðaframtak sem vatnsleikfimikennslan hjá Ingibjörgu er fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af hreyfingu fjölda sundlaugargesta sem mæta daglega í heilsueflingu hjá Ingibjörgu.

Ívar Sigmundsson

  • Ívar Sigmundsson er fæddur á Akureyri 5. maí 1942.
  • Á sínum yngri árum var Ívar afreksmaður í alpagreinum á skíðum. Ívar varð Íslandsmeistari í alpagreinum árin 1966 og 1967. Hápunktur ferilsins er án efa þátttaka á Ólympíuleikunum í Grenoble í Frakklandi fyrir Íslands hönd árið 1968. Það sama ár var Ívar kjörinn Íþróttamaður KA.
  • Ívar var einn af upphafsmönnum Andrésar andar leikanna sem voru settir á laggirnar árið 1976 og sat í nefnd leikanna í 35 ár, eða til ársins 2011. Ívar sat lengi í Skíðaráði Akureyar, sem var forveri Skíðafélags Akureyrar.
  • Ívar starfaði að framþróun og uppbyggingu skíðaíþróttarinnar á Akureyri og á Íslandi með margvíslegum hætti, sem forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli frá árinu 1970 til ársins 2000.
  • Fyrir framlag sitt og störf í þágu skíðaíþróttarinnar hefur Ívar hlotið brons- og silfurmerki KA, silfurmerki ÍBA og gullmerki ÍSÍ.

Eva Hrund Einarsdóttir, formaður frístundaráðs, Hreiðar Jónsson, Ingibjörg Anna Sigurðardóttir, Ívar Sigmundsson og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.