Fara í efni
Fréttir

Mjög kalt gæti orðið í Eyjafirði á morgun

Litli fiskimaðurinn við Hof, verk norska listamannsins Knut Skinnerland frá 1962 er ýmsu vanur. Ljós…
Litli fiskimaðurinn við Hof, verk norska listamannsins Knut Skinnerland frá 1962 er ýmsu vanur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Töluverðu frosti er spáð víða næsta sólarhringinn, einkum inn til landsins og mjög kalt gæti orðið frammi í Eyjafirði, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

„Staðspárnar fyrir Akureyri eru mjög misvísandi. Það gerir legan og hvað stutt er annars vegar til sjávar og hins vegar hárra fjalla,“ sagði Einar við Akureyri.net í morgun. Einar rekur Veðurvaktina og fjallar ítarlega dag hvern um veður og loftslag á vefnum blika.is.

Norðanátt og snjókoma hefur verið í Eyjafirði síðasta sólarhringinn en úrkomunni linnir senn. „Norðanáttin gengur að fullu niður í nótt og þá tekur við hægur landvindur. Nái að gera heiðríkju verður kaldast við þær aðstæður. Trúlega verður 9 til 12 stiga frost á morgun á Akureyri, en líkast til meira frammi í Eyjafirði, frostið gæti farið í 15 til 17 þar. Annars er þetta mikið undir vindinum komið. Smá gola er næg til að hræra upp í mestu kuldapollunum, “ segir Einar.

Veðurvefur Einars