Fara í efni
Fréttir

Hörður Kristinsson grasafræðingur látinn

Hörður Krist­ins­son grasa­fræðing­ur lést fimmtu­dag­inn 22. júní, 85 ára að aldri. Hörður var af­kasta­mik­ill fræðimaður og brautryðjandi í rann­sókn­um á út­breiðslu ís­lenskra plantna, segir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, þar sem hans er minnst. Hörður starfaði stóran hluta starfsævinnar hjá stofnuninni. 

Hörður fædd­ist á Ak­ur­eyri 29. nóv­em­ber 1937 og var al­inn upp á Arn­ar­hóli í Eyja­fjarðarsveit. For­eldr­ar hans voru Krist­inn Sig­munds­son bóndi og Ing­veld­ur Hall­munds­dótt­ir hús­freyja.

Hörður lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri árið 1958 og hélt að því loknu til Gött­ingen í Þýskalandi til náms í grasa- og dýrafræði og plöntusjúkdómum. Að loknu fyrrihlutaprófi við háskólann í Göttingen kenndi Hörður við MA veturinn 1962–1963 en eftir það hélt hann aftur utan og lauk doktorsprófi í grasafræði árið 1966. Að prófi loknu hóf Hörður rannsóknir á íslenskum fléttum í samstarfi við W. Culberson við Duke-háskóla í Norður-Karolínuríki í Bandaríkjunum. Hörður dvaldi í Bandaríkjunum árin 1967–1970 að sumrunum 1967 og 1968 undanskildum þegar hann safnaði fléttum víða um land. Hann starfaði við Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarðinn á Akureyri á árunum 1970–1977, var prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands 1977–1987 og stýrði Náttúrufræðistofnun Norðurlands, síðar Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, 1987–1999. Eftir það var hann sérfræðingur hjá stofnuninni þar til hann fór á eftirlaun árið 2007. Síðustu starfsárin sinnti hann jöfnum höndum rannsóknum á fléttum og háplöntum. Hins vegar dró lítið úr framlagi Harðar til grasafræði Íslands þrátt fyrir að eftirlaunaaldri væri náð og vann hann ötullega að ýmsum hugðarefnum sínum innan grasafræðinnar á meðan heilsan leyfði.

Hörður var afkastamikill fræðimaður og brautryðjandi í rannsóknum á útbreiðslu íslenskra plantna og eftir hann liggja tæplega 150 ritsmíðar á því sviði. „Hann var fljótur að sjá möguleikana sem felast í að varðveita gögn á stafrænu formi og hóf að byggja upp gagnagrunn Náttúrufræðistofnunar Íslands um sveppi, fléttur og plöntur snemma á 9. áratugnum. Í dag geymir gagnagrunnurinn um 650 þúsund færslur er vísa til sýna í plöntusöfnum stofnunarinnar eða vettvangsskráninga,“ segir á vef Náttúrufræðistofnunar.

Þar segir einnig:

„Auk þess að vera vísindamaður var Hörður mikilvirkur alþýðufræðari og kunnar eru bækur hans Íslenska plöntuhandbókin sem fyrst kom út 1986 og Íslenskar fléttur sem kom úr árið 2016. Nýverið átti Hörður svo hluta að stórvirkinu Flóra Íslands, ásamt Jóni Baldri Hlíðberg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur, sem kom út 2019 og vann til íslensku bókmenntaverðlaunanna sem fræðibók ársins. Um árabil hélt hann úti vefnum Flóra Íslands og birti þar myndir af fjölmörgum tegundum plantna og sveppa auk margháttaðs fróðleiks. Einnig kom hann á fót Flóruvinum árið 1998, sem er vettvangur fyrir áhugafólk um plöntur, nú í umsjón Flóruvinadeildar Hins íslenska náttúrufræðifélags. Á þeim vettvangi gaf hann út fréttablaðið Ferlaufung á árunum 1998–2012, þar sem birtur var ýmiss konar fróðleikur um plöntur, meðal annars var greint frá nýjum tegundum og fundarstöðum. Undir hatti Flóruvina skipulagði Hörður Dag hinna villtu blóma á Íslandi en þar er almenningi boðið til plöntuskoðunar undir leiðsögn. Um er að ræða viðburð sem haldinn er samtímis á öllum Norðurlöndunum.

Hörður var alla tíð vörður íslenskrar tungu og á degi íslenskrar tungu árið 2002 var hann sæmdur viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins fyrir starf sitt að gagnagrunni um íslensk plöntunöfn. Á nýársdag 2016 var Hörður sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir og kynningu á íslenskum gróðri.“

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Harðar er Sigrún Björg Sig­urðardótt­ir. Dætur hans og fyrrverandi eiginkonu, Önnu Maríu Jóhannsdóttur, eru Fann­ey og Inga Björk Harðardæt­ur.