Fara í efni
Fréttir

Hollvinir gefa 23 rúm af bestu gerð í Kristnes

Jóhannes G. Bjarnson, formaður stjórnar Hollvinasamtaka SAk og Kristín Margrét Gylfadóttir, forstöðuhjúkrunarfræðingur Kristnesspítala, handsala gjöfina. Aftan við þau standa fjórir af stjórnarmönnum Hollvinasamtaka SAk og framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs SAk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) færðu Kristnesspítala nýverið að gjöf 23 rafknúin sjúkrarúm af fullkomnustu gerð ásamt dýnum. Nýju rúmin leysa af hólmi eldri rúm sem eru án slíkra tæknilausna og byggja einvörðungu á handafli skjólstæðinga og starfsfólks.

Gjöfin var formlega afhent í dag. Þetta er annað stórverkefnið sem Hollvinasamtök SAk ráðast í á skömmum tíma og tengist Kristnesspítala beint. Fyrir nokkrum mánuðum færðu Hollvinasamtök SAk spítalanum 7 upphengisjónvörp í herbergi skjólstæðinga stofnunarinnar sem og tvö stór sjónvörp í dagstofu og fundarherbergi skjólstæðinga og starfsfólks. Þau tæki nýtast m.a. á fundum beggja hópa, til fjarfunda og til afþreyingar.

Fjölmörg fyrirtæki komu að fjársöfnun vegna þessara tveggja verkefna og vildu forráðamenn Hollvinasamtakanna þakka heim heilshugar. Þá sé hlutur Hollvina SAk stór að venju en þeir mynda hryggjarstykkið í starfseminni með föstu, árlegu framlagi sem er 6.000 krónur.

Hryggsjá og fósturómsjá næst á dagskrá

Hollvinir SAk hafa þegar ráðist í tvö ný stórverkefni sem ætlunin er að ljúka á yfirstandandi ári. Annars vegar eru hafin söfnun fyrir kaupum á hryggsjá og hins vegar fyrir kaupum á fósturómsjá. Samtals kosta þessi tvö tæki um 60 milljónir króna.

  • Hryggsjá er leiðsögutæki fyrir stórar bakaðgerðir á hryggsúlunni, eins og Akureyri.net hefur fjallað ítarlega um, til dæmis hér. Tækið gerir aðgerðir nákvæmari, fljótlegri og öruggari fyrir bæði sjúkling og starfsfólk. Með tilkomu slíks tækis verður aðstaða til hryggjaraðgerða á SAk sú besta sem völ er á hér á landi og fyllilega sambærileg við það sem best gerist á stærstu sjúkrahúsum erlendis.
  • Fósturómsjáin mun leysa af hólmi tæki sem er komið vel til ára sinna og uppfyllir ekki nýjustu kröfur og tækni. 

Hollvinasamtök SAk eru nú orðin almannaheillafélag og á almannaheillaskrá. Framlög til Hollvinasamtaka SAk eru því frádráttarbær til skatts hjá gefendum, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga.

Hægt er að gerast Hollvinur SAk með því að fara á heimasíðu SAk og skrá sig þar. Hlekkurinn er https://www.sak.is/is/moya/page/hollvinasamtok-sjukrahussins-a-akureyri Einnig er hægt að senda póst á netfangið hollvinir@sak.is

Frá afhendingu sjúkrarúmanna í dag. Hópurinn við eitt af þeim 23 nýju sjúkrarúmum sem tekin hafa verið í notkun á Kristnesspítala. Frá vinstri: Jóhann Rúnar Sigurðsson, Bjarni Jónasson og Hermann Haraldsson, stjórnarmenn í Hollvinasamtökum SAk, Guðmundur Magnússon, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs SAk, Jóhannes G. Bjarnson, formaður stjórnar Hollvinasamtaka SAk, Kristín Sigfúsdóttir og Bragi V. Bergmann, stjórnarnmenn í Hollvinasamtökum SAk, Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs SAk og Kristín Margrét Gylfadóttir, forstöðuhjúkrunarfræðingur Kristnesspítala. Fyrir ofan hópinn er eitt af nýju upphengisjónvörpunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Annað stóru sjónvarpanna sem Hollvinasamtök SAk gáfu á Kristnes nýverið. Tækin nýtast m.a. á fundum beggja hópa, til fjarfunda og til afþreyingar.
_ _ _

UM KRISTNESSPÍTALA

Kristnesspítali í Eyjafjarðarsveit er um 10 km sunnan við Akureyri. Þar fara fram endurhæfingar- og öldrunarlækningar Sjúkrahússins á Akureyri og þar er einnig útibú frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. Kristnesspítali var tekinn í notkun 1927 og þá sem berklahæli.

Grunnur starfsins er þverfagleg teymisvinna meðferðaraðila í samvinnu við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra. Í teymunum starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafi, sjúkraliðar og aðstoðarfólk. Talmeinafræðingur og sálfræðingur koma inn í teymin þegar við á. Samvinna við þjónustuaðila utan stofnunarinnar er einnig mikilvægur þáttur í starfinu. Má þar nefna heilsugæslu og þá sérstaklega heimahjúkrun, ýmis úrræði á vegum Akureyrarbæjar auk Virk starfsendurhæfingarsjóðs.