Fara í efni
Fréttir

Höfðingleg gjöf til Iðnaðarsafnsins

Iðnaðarsafninu á Akureyri barst vegleg gjöf á dögunum, að því er segir á Facebook síðu safnsins. Um er að ræða steypumót sem notuð voru við framleiðslu á borðfánastöng sem stendur á stuðlabergsfæti. Þar er einnig dagsetningin, 17. júní 1944 og lágmynd af Íslandi er inngreipt í fánastöngina.

„Það var Sigurður Gunnlaugsson sem kom og afhenti safninu steypumótið að gjöf, fyrir hönd sína og Guðmundar bróður síns en það var faðir þeirra Gunnlaugur Jónsson sem smíðaði mótið árið 1945, en Gunnlaugur þessi var m.a stofnandi Vélaverkstæðisins Odda, síðar Vélsmiðjunnar Odda hér á Akureyri árið 1927,“ segir á síðu safnsins.

„Þessar stangir voru vinsælar sem viðhafnargjafir, ekki síst til útlendinga og t.d. var stöngin lengi vel gjöf sem Búnaðarfélag Íslands gaf gestum sínum bæði innlendum sem erlendum.“

Steypumótið verður í framtíðinni til sýnis á Iðnaðarsafninu á Akureyri.

„Þessi stuðlabergsfánastöng er um ræðir er mjög eftirsótt og víða eru þessar fánastangir til á heimilum landsins, sem og vitað er að fánastöngin er víða til sölu fyrir mikið fé á fornsölum. Þetta mót er því mikil og falleg gjöf sem við þökkum kærlega fyrir. Framleiðsla stuðlabergsfánastanganna var haldið áfram vel yfir árið 1950.“