Fara í efni
Fréttir

Hlýtt á ný í bíó eftir að það andaði köldu

Í vikunni voru settir upp skjáir við inngang í báði sali Sambíósins á Akureyri auk þess sem unnið var að því að laga loftrætstikerfið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kuldakastið mikla í desember olli vandræðum í Sambíóunum á Akureyri og aftur þegar mjög kalt var í veðri á dögunum.  Framkvæmdastjóra bíóanna þykir það mjög miður og biður Akureyringa innilega afsökunar á óþægindunum.

„Eitthvað varð þess valdandi að loftræstikerfi hússins bilaði í mesta frostinu í desember. Við réðumst að sjálfsögðu í að gera við það í hvelli og héldum að vandræðin væru að baki,“ segir Björn Árnason framkvæmdstjóri Sambíóanna við Akureyri.net. „Þegar aftur varð mjög kalt í veðri á dögunum kom hins vegar í ljós að kerfið virkaði ekki sem skyldi og við fengum strax menn í að finna út hvað hafi gerst og gera við.“

Fólki á að líða vel

Bíógestum stóð ekki á sama og margir létu óánægju sína í ljós sem kom Birni alls ekki á óvart. „Margir höfðu samband við okkur til að kvarta sem er auðvitað mjög eðlilegt. Við viljum að sjálfsögðu að öllum líði vel í bíó og það er óviðunandi ef fólki er kalt. Ég er eins og aðrir bíógestir; ég vil að myndin sé góð, hlýtt og notalegt í salnum og að poppið mitt sé mátulega saltað,“ segir Björn.

„Ég vil því nota tækifærið og biðja Akureyringa og aðra gesti Sambíóanna á Akureyri innilega afsökur á því ástandi sem skapaðist og vona að þetta komi aldrei fyrir aftur,“ sagði Björn Árnason.

Ýmislegt hefur verið gert í bíóinu síðustu misseri til að bæta upplifun gesta. Skipt var um öll sæti í sölunum eins og Akureyri.net greindi frá á sínum tíma, skipt hefur verið um tölvukerfi í afgreiðslunni sem á að flýta og bæta þjónustu og í vikunni voru settir upp skjáir við inngang í salina tvo, m.a. til þess að ekki fari á milli mála hvað er verið að sýna í hvorum. Björn segir þetta allt lið í að bæta upplifun gesta og fleira sé í farvatninu.