Fara í efni
Fréttir

„Hlýðið Víði – með öllu sem í því felst!“

Hjúkrunarfræðingarnir Berglind Júlíusdóttir, verkefnastjóri göngudeildarinnar, og Sigríður Sólveig Stefánsdóttir ásamt Pálma Óskarssyni yfirlækni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tveir sjúklingar liggja á Sjúkrahúsinu á Akureyri með staðfest Covid smit, annar þeirra á gjörgæslu. Átta smit greindust innanlands á fimmtudag og hafa ekki verið færri á einum degi síðan um miðjan september. Tvö þessara smita voru á Norðurlandi eystra, annar hinna smituðu var í sóttkví. Á Akureyri eru nú 116 í sóttkví og 73 í einangrun.

Tvær Coviddeildir eru á Sjúkrahúsinu á Akureyri, samstarfsverkefni bráðalækninga og lyflækninga. Pálmi Óskarsson, forstöðulæknir bráðalækninga á SAk, veitti Covid legudeild forstöðu í vetur, og stýrir nú göngudeildinni. Covid legudeild heyrir undir lyflækningadeild og þar er Sólveig Hulda Valgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur, verkefnastjóri.

Pálmi Óskarsson segir starfsmenn SAk hafa verið búna undir að opna Covid deildir þótt lítið hafi verið um smit norðan heiða í sumar. „Við vissum að aftur kæmi að því opna þyrfti Covid deild, en áttum reyndar ekki von á svona mörgum smitum. Hér á svæðinu urðu tvö hópsmit um daginn og hlutfall smita á landsvísu var hátt.“

Aðdáunarvert framtak Landspítalans

Covid göngudeild Landspítalans sér um eftirfylgni með sjúklingum í gegnum síma. „Ef fólk fer á skrá fær það símtal við fyrsta hentugleika, og þessi símadeild vinnur afar gott verk. Mjög vel er fylgst með fólki og ef sjúklingi versnar er honum vísað til okkar,“ segir Pálmi.

„Sjúklingar eru litakóðaðir; grænn er þokkalega hress, gulir sjúklingar eru þeir sem hvorki hefur batnað né versnað en rauðir eru alvarlega veikir. Símadeildin vinnur afar gott verk, fólk fær ráðleggingar og upplifir sig öruggara fyrir vikið. Framtak Landspítalans er sannarlega aðdáunarvert og full ástæða til þess að hrósa spítalanum fyrir það.“

Pálmi segir að færri hafi komið á bráðadeild SAk í hefðbundnum tilgangi, eftir að faraldurinn fór af stað í vetur. „Fólk varð svo afslappaðra á ný þegar stjórnvöld slökuðu á kröfum í sumar og fleiri komu á bráðadeildina, en nú hefur aftur fækkað. Enda hvetjum við fólk til að koma ekki með óbráð erindi heldur hringja hingað eða í heilsugæsluna. En fólk í bráðaerindum á að sjálfsögðu að koma.“

Félagslega hliðin mikilvæg

Pálmi leggur áherslu á að þær aðgerðir sem séu í gangi skipti miklu máli og biður fólk að hafa eitt og annað í huga: „Í fyrsta lagi: hlýða Víði - með öllu sem í því felst,“ segir hann.

Fólk þarf að hlýta reglum, annars næst ekki árangur sá árangur sem stefnt er að:

  • Farðu eftir tveggja metra reglunni.
  • Notaðu grímu þar sem ekki er hægt að tryggja að tveir metrar séu á milli fólks.
  • Þvoðu og sprittaðu hendur þegar komið er inn á opinbera staði, til dæmis verslanir, og aftur þegar farið er út.
  • Ekki fara út á meðal fólks ef þú ert með öndunarfærasýkingu.
  • Alls ekki fara í vinnuna ef þú ert kvef. Pantaðu tíma í sýnatöku.
  • Hugsaðu vel um sjálfan þig – hreyfðu þig, njóttu útiveru, reyndu að gera eitthvað skemmtilegt. Hugsaðu um eitthvað annað en veiruskrattann, þó með allar varúðarráðstafnir í huga.
  • Setjið sjúka og gamla fjölskyldumeðlimi í einangrun og aðstoðið við matarinnkaup, talið við fólkið í síma eða í gegnum tölvuna. Veikindin geta lagst þungt á fólk, eðlilega, og því er mikilvægt að hugsa um félagslegu hliðina.
  • Ekki mæta á heilsugæslustöð eða á bráðamóttöku nema vegna bráðavandamála. Hringið annars.