Fara í efni
Fréttir

Hjördís tekur við starfi þjónustustjóra atNorth

Hjördís Þórhallsdóttir tekur senn við starfi þjónustustjóra hátæknigagnavers atNorth á Akureyri. Mynd: atNorth
Hjördís Þórhallsdóttir hefur verið ráðin í starf þjónustustjóra hátæknigagnavers atNorth á Akureyri og hefur störf í júní. „Viðamikil reynsla Hjördísar sem stjórnanda kemur að góðum notum við yfirstandandi stækkun gagnaversins sem kallar bæði á aukinn mannafla og eykur þjónustu þess. Meðal verkefna Hjördísar verður að tryggja farsæla innleiðingu nýrra viðskiptavina atNorth og sjá til þess að hæsta þjónustustig fyrirtækisins verði ávallt uppfyllt,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
 
„Hjördís er reynslumikill stjórnandi og hefur tekist á við fjölbreytt og krefjandi verkefni frá því hún útskrifaðist sem verkfræðingur og hefur unnið að þróun og verkefnastjórnun á vörum, tækjum, búnaði og þjónustu.“
 
Hjördís var flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli og umdæmisstjóri hjá Isavia frá 2012 en lét af því starfi á dögunum. „Þar áður var hún deildarstjóri vinnuflokka Vegagerðarinnar frá 2008 til 2012 og verkefnastjóri og Technical Lead í þróunardeild Össurar milli 2003 og 2008. Hjördís útskrifaðist með B.Sc. gráðu í vöruhönnunarverkfræði frá Háskólanum í Skövde í Svíþjóð 1998 og lauk M.Sc. gráðu Engineering Product Design við South Bank University í Lundúnum 1999,“ segir í tilkynningunni.
 
Stóraukin eftirspurn
 
„Við bjóðum Hjördísi hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins á Akureyri. Með uppgangi gervigreindar hefur stóraukist eftirspurn eftir þjónustu gagnavera. Það finnst jafnt á Akureyri sem öðrum gagnaverum atNorth á Íslandi og á Norðurlöndum, en í þeim er lögð áhersla á samhæft verklag og þjónustu. Hjá okkur fær fólk tækifæri til að starfa við fremstu tækni gagnavera og gervigreindar hverju sinni og læra það sem nýjast gerist í þeim geira á alþjóðlegum vinnustað,“ er haft eftir Erlingi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra rekstrar atNorth í tilkynningunni.
 
„Ég er afskaplega spennt að hefja störf í jafnspennandi og kvikum geira og gagnaversiðnaðurinn er og hlakka mjög til þess að taka til hendinni í gagnaveri atNorth hér á Akureyri. Það verður gaman að byggja á fyrri reynslu í starfsemi þar sem fjárfestingartölur hlaupa á milljörðum og umfangið fer ört vaxandi,“ segir Hjördís.
 
Í sumar er gert ráð fyrir því að 25 verði í föstu starfi í gagnaveri atNorth á Akureyri og fjölgi svo enn eftir því sem stækkun gagnaversins vindur fram. „Bein fjárfesting atNorth vegna stækkunarinnar á Akureyri nemur 12 til 13 milljörðum króna og fjárfesting viðskiptavina í búnaði fer langleiðina í hundrað milljarða,“ segir í tilkynningunni.
 
„Yfirstandandi er stækkun gagnavera atNorth á Akureyri og í Reykjanesbæ, en að auki rekur atNorth gagnaver í Hafnarfirði og fimm til viðbótar á Norðurlöndum. Fram undan á þessu ári er svo opnun tveggja nýrra gagnavera í Finnlandi og Danmörku. Þá er ellefta gagnaver atNorth í byggingu í Ølgod í Danmörku.“