Fara í efni
Fréttir

Hjólareinar málaðar á tvær götur á Brekkunni

Hjólreiðamaður á leið norður Mýrarveg á afmörku tilrauna-svæði. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Vegfarendur sem átt hafa leið um Brekkuna á Akureyri undanfarna daga hafa ef til vill tekið eftir að búið er að afmarka hjólareinar á götunni í Skógarlundi og hluta Mýrarvegar. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir að um tilraunaverkefni sé að ræða. Margar götur í bænum hafi verið hannaðar fyrir 50 km hámarkshraða en búið sé að breyta þeim í 30 km götur. Göturnar séu breiðar og sums staðar séu gangstéttirnar mjóar og því hafi verið ákveðið að prófa að aðskilja umferð gangandi og hjólandi með þessum hætti.

Ekki er búið að ákveða með framhald á þessu verkefni en Ásthildur segir að skoðað verði hvernig þetta kemur út á þessum tveimur götum. Ef reynslan verði góð þá komi til greina að bæta við svona hjólareinum víðar í bænum, fáist til þess samþykki.