Fara í efni
Fréttir

Hjólar og safnar í minningu systur sinnar

Akureyringurinn Rúnar Símonarson, sem nú er búsettur í Noregi, hefur í dag kl. 14 að íslenskum tíma hjólatúr sem ætlunin er að standi í 48 klukkustundir. Verkefnið er söfnunarátak til minningar um systur hans, Rósu Hansen. Páskarnir eru hátíð þar sem kristið fólk fagnar sigri lífsins yfir dauðanum, en á páskum fyrir 13 árum, þann 2. apríl 2010, tók Rósa sitt eigið líf. Hún hafði þá átt í sálrænum erfiðleikum í nokkurn tíma og hafði áður reynt að enda líf sitt.

Rúnar vill núna með þessu framtaki styðja við bakið á Píeta-samtökunum. Tvær leiðir eru til að hjálpa Rúnari við að safna fyrir samtökin. Annars vegar er söfnun á Gofundme.com og hins vegar má leggja beint inn á reikning samtakanna – 0301-26-041041, kt. 4104160690. Rúnar biður gefendur að skrifa Rósa sem skýringu þegar lagt er inn á reikninginn. Þannig er hægt að sjá hve mikið safnast í hennar nafni.

Kom ekki á óvart – en jafn sárt fyrir því

Rúnar segir að sjálfsvíg Rósu hafi í sjálfu sér ekki komið á óvart, en það hafi þó auðvitað verið mjög sárt að fá fréttirnar. Hann tók flug heim til Íslands strax daginn eftir og var með fjölskyldunni þar til nokkrum dögum eftir útförina til að takast á við missinn í sameiningu.

„Rósa var skemmtileg og frábær persóna og alltaf liðleg til að hjálpa öðrum,“ segir Rúnar um systur sína. „En ég missti mikið samband við hana þegar ég flutti til Reykjavíkur árið 1994 og svo nánast alveg þegar ég flutti til Noregs árið 2004. Einmitt á þeim tíma átti hún mjög erfitt sálarlega og hefur kannski þess vegna minnkað samband við sína nánustu til að hylja yfir veikindi sín.“

Og nú styður Rúnar við samtök sem hjálpa fólki í svipuðum sporum og Rósa var á sínum tíma. Hann ætlar að hjóla í 48 klukkustundir – samsvarandi einni klukkustund fyrir hvert ár sem hann hefur lifað – og þannig í senn fagna lífinu og minnast dauðans, hjálpa þeim sem eiga í sálarangist með því að styðja við Píeta-samtökin, sem einmitt hjálpa fólki í svipaðri stöðu og Rósa var síðustu ár ævi sinnar.

Rúnar kveðst hafa valið að safna fé fyrir Píeta-samtökin þar sem honum finnist þau vera að vinna að mikilvægu málefni við að hjálpa þeim sem eru í sömu hugleiðingum og systir hans glímdi við.

Píeta-samtökin

Píeta-samtökin hafa starfað frá 2016 og byggja á írskri fyrirmynd, en meginhlutverk samtakanna er að sinna forvarnastarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

 • Samtökin sinna forvarnastarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.
 • Boðið er upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir 18 ára og eldri.
 • Samtökin opnuðu þjónustu sína vorið 2018 og eru með starfsemi á Amtmannsstíg 5a í Reykjavík.
 • Píeta-síminn, 552 2218, er opinn allan sólarhringinn.
 • Einnig er bent á hjálparsíma Rauða krossins, 1717.
 • Í neyðartilvikum skal ávallt hringja í 112.
 • Hjá Píeta-samtökunum starfar fólk með viðeigandi menntun og reynslu.
 • Við meðferðarvinnu starfar aðeins fólk með viðurkennda menntun og opinber starfsleyfi á sviði sálfræði eða geðheilbrigðis, auk að minnsta kosti tveggja ára reynslu af klínískri vinnu.
 • Mikið er lagt upp úr því að vera alltaf til staðar og Píeta-síminn því opinn allan sólarhringinn, en sérþjálfað starfsfólk samtakanna sér um símsvörun.
 • Starfsemin er rekin að fyrirmynd og eftir hugmyndafræði Pieta House á Írlandi.
 • Meðferð samtakanna er mótuð af samúð og virðingu fyrir hverjum þeim sem til þeirra leitar og áhersla lögð á lausnir og uppbyggingu.
 • Miðað er að því að leysa yfirstandandi krísu með viðkomandi og glæða von um líf sem er þess virði að lifa.

Snjallhjól sem líkir eftir landslaginu

Rúnar notar svokallað snjallhjól af gerðinni Tacx Neo Bike. Hér er ekki um venjulegt reiðhjól að ræða og Rúnar er ekki að „fara út að hjóla“ heldur er þetta eins konar þrekhjól með skjá og hægt að velja brautir eða leiðir sem hjólaðar eru. Hjólið líkir svo eftir brekkum í forritinu, en getur einnig líkt eftir mismunandi jarðvegi eða undirlagi.

„Ég ákvað að leggja í þennan hjóltúr eftir að ég hjólaði 520 km á 15,5 tímum, á Zwift, í lok október á síðasta ári með hópi af fólki sem ég hjóla oft með á Zwift,“ segir Rúnar aðspurður um af hverju hann ákvað að fara þessa leið – hjóla til að safna fé.

Fimmtíu ferðir milli Akureyrar og Reykjavíkur

Hann segir að honum hafi fundist þá að hann gæti gert eitthvað í þessa veru til að skora á sjálfan sig og til að sjá hvað hann gæti pressað sig langt og jafnframt látið gott af sér leiða. „Ég byrjaði að hjóla á Zwift í lok október 2020 og þá var bakterían komin, ég hjólaði alla daga í fleiri mánuði og léttist um 15 kíló (úr 82 í 67 kíló) á rétt rúmlega tveimur mánuðum.“ Rúnar kveðst eftir það hafa hjólað nánast daglega – og hann hjóli líka úti undir beru lofti – samanlagt um 19.000 kílómetra á ári eða rúmlega 52 kílómetra að meðaltali á dag allt árið.

Píeta-samtökin eru skráð á Amtmannsstíg 5a í Reykjavík og Aðalstræti 14 á Akureyri. Vegalengdin þar á milli er 382 kílómetrar og því má segja að árlega hjóli Rúnar 50 ferðir á milli aðseturs samtakanna í Reykjavík og á Akureyri.

Engar áhyggjur af forminu

Það verður spennandi að sjá hvernig „hjólatúrinn“ gengur, hve langt Rúnar kemst á 48 tímum – við gerum auðvitað ráð fyrir að hann haldi út í tvo sólarhringa – og síðast en ekki síst hve miklu hann nær að safna fyrir Píeta-samtökin, því það er aðalatriðið með þessu framtaki Rúnars.

Rúnar segir ekki gott að segja hve langt hann muni ná að hjóla á þessum 48 tímum, það muni ráðast af því hvernig gengur, hvernig pásurnar verði og hvernig líkaminn bregðist við þessari áreynslu. Hann reiknar með að ef vel gangi muni hann ná um 1.100-1.200 kílómetrum. „En þá þarf allt að smella saman,“ segir hann.

Rúnar hefur að því er virðist ekki miklar áhyggjur af eigin ástandi eða formi fyrir þessa 48 tíma píslar-hjóla-göngu sem hefst í dag, á föstudaginn langa. Hann stundar ekki aðeins hjólreiðarnar af kappi heldur einnig styrktaræfingar heima hjá sér til að bæta sig sem hjólara. „Ég er því í besta formi lífs míns og mæli með því að fólk prófi hjólreiðar, bæði úti og inni. Það er alltaf gott veður inni og enginn sem flautar á mann eða reynir að keyra á mig,“ segir Rúnar.

Hjólreiðarnar hafa ekki aðeins bætt formið heldur heilsuna einnig því Rúnar kveðst vera með slit í mjóbakinu og hafi oft verið slæmur, oft verið frá vinnu af þeim völdum, en finni lítið fyrir þessu ástandi eftir að hann byrjaði að hjóla.

Eins og lesa má í brotum úr dagbókinni undir Facebook-viðburðinum tók Rúnar prufuhelgi fyrir um þremur vikum þar sem hann hjólaði á svipuðum hraða og hann mun hjóla í dag og á morgun, til að reikna út hraða og orkunotkun. Út frá þeirri prufu reiknar hann með að brenna um 25.000 hitaeiningum á þessum 48 tíma hjólatúr.

Punktar úr dagbókinni

Rúnar stofnaði viðburð á Facebook – styrktarhjóltúr fyrir Píeta-samtökin – þar sem hann hefur sett inn upplýsingar og myndir frá undirbúningstímabilinu. Hann hefur núna í rúman mánuð verið að æfa sig og undirbúa sérstaklega fyrir þennan viðburð og hefur birt myndir og upplýsingar undir viðburðinum á Facebook.

Hér eru brot úr því sem hann hefur sett inn um undirbúninginn:

 • 7. mars
  Fyrir þá sem ekki þekkja innihjólreiðar, eða forritið (Zwift) sem ég mun nota til að hjóla þá lítur það svona út (sjá mynd). Þetta er nánast eins og að hjóla úti, það verður erfiðara að hjóla upp brekkur og léttara að hjóla niður.
 • 7. mars
  Ég hjóla venjulega um 400 km á viku til að æfa fyrir páskahjólatúrinn.
 • 17. mars
  Þessi helgi verður notuð sem generalprufa fyrir páskana. Á morgun ætla ég að hjóla í 12 tíma og sunnudaginn í sex tíma, á sömu leið og á svipuðum hraða og ég stefni á að hjóla þessa 48 tíma.
 • 17. mars
  Ætla að nota þessa helgi til að fínstilla hjólahraða og pásur þannig að ég hafi næga orku og einbeitingu til að klára þetta ævintýri.
 • 17. mars
  Þeir sem vilja geta einnig fylgst með æfingum mínum síðustu mánuði á Strava (Runar Sim).
 • 19. mars
  Dagurinn í dag verður helmingi styttri, eða sex tímar. Tólf tímarnir í gær enduðu í 306 km, en ég hélt áfram upp í 310 km (fallegri tala).
 • 1. apríl
  Nú er bara vika í viðburðinn og næstsíðasta æfing er í gangi í þessum skrifuðum orðum. Tek svo frí á morgun og hinn, +50 km á mánudaginn, mjög rólegan túr á fimmtudaginn og svo hefst andleg og tilfinningarík helgi kl. 14 að íslenskum tíma á föstudaginn.
 • 4. apríl
  Í gær var síðasta æfing fyrir föstudaginn langa. Svo núna eru tveir hvíldardagar, en á fimmtudaginn mun ég hjóla mjög rólega um 15 km til að vekja lappirnar aðeins.