Fara í efni
Fréttir

Hjálpræðisherinn kaupir Lón af karlakórnum

Hertex, verslun Hjálpræðishersins, er í húsinu til vinstri, Lón hægra megin. Ljósmynd: Skapti Hallgr…
Hertex, verslun Hjálpræðishersins, er í húsinu til vinstri, Lón hægra megin. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hjálpræðisherinn á Akureyri hefur keypt Lón, félagsheimili Karlakórs Akureyrar – Geysis við Hrísalund og flytur starfsemi sína þangað í sumar. Um er að ræða alla efri hæð Hrísalundar 1b og hluta þeirrar neðri. Síðustu 40 ár hefur Hjálpræðisherinn verið til húsa við Hvannavelli en hefur nú selt húsið, sem verður afhent nýjum eiganda í sumar.

Ekki er ljóst hvað karlakórinn gerir í húsnæðismálum, að sögn Benedikts Sigurðarsonar, formanns kórsins. Framundan séu miklar lagfæringar á húsinu og það sé of dýrt verkefni fyrir kórinn. „Við þurfum að koma okkur fyrir með einhverjum hætti, það verður til umræðu inn á við og kemur í ljós,“ segir Benedikt við Akureyri.net.

Hjálpræðisherinn rekur verslunina Hertex í næsta húsi við Lón. Herdís Helgadóttir, starfsmaður Hjálpræðishersins á Akureyri, segir það hluta nýrrar stefnu að samstarf verði meira en áður á milli eininga og nú þegar kirkjustarfið og verslunin verði hlið við hlið séu mörg tækifæri fyrir hendi. 

Húsið við Hvannavelli þar sem starfsemi Hjálpræðishersins hefur verið síðustu fjóra áratugi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.