Fara í efni
Fréttir

Hilmar Gíslason er látinn

Hilmar Gíslason er látinn

Hilmar Henry Gíslason, fyrrverandi yfirverkstjóri hjá Akureyrarbæ, er látinn 85 ára að aldri. Hilmar var fæddur á Akureyri 29. febrúar 1936, sonur hjónanna Gísla Ólafssonar og Önnu Kristínar Ásgeirsdóttur. Hann lést í fyrrinótt.

Eiginkona Hilmars, Ingibjörg Þorvaldsdóttir, lést 18. febrúar á þessu ári. Þau eignuðust þrjú börn; Þorvaldur Kristinn er elstur, fæddur 1965, Ólafur Gísli er fæddur 1967 og Kristín er fædd 1969. Áður átti Hilmar dótturina Guðveigu Jónu, sem fædd er 1962.

Hilmar lauk gagnfræðiprófi og hóf störf sem atvinnubílstjóri 17 ára. Síðar réðst hann til starfa hjá Akureyrarbæ, varð yfirverkstjóri hjá bænum um þrítugt og sinnti því starfi í áratugi. Hann ólst upp á Oddeyri, fjölskyldan bjó í Fjólugötu, Hilmar hóf ungur að leika knattspyrnu með Þór og síðar lék með hann liði Íþróttabandalags Akureyrar. Hann var alla tíð mikill íþróttaáhugamaður, fyrst og fremst var það knattspyrnan sem heillaði framan af, en eftir að vinir Hilmars gáfu honum golfsett í fimmtugsafmælisgjöf var hann forfallinn kylfingur. Hilmar var gerður að heiðursfélaga íþróttafélagsins Þórs árið 2015.