Fara í efni
Fréttir

Hildigunnur skipuð í embætti forstjóra SAk

Heilbrigðisráðherra hefur skipað Hildigunni Svavarsdóttur í starf forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri (SAk). Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

„Hildigunnur hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði heilbrigðisþjónustu ásamt víðtækri reynslu á sviði stjórnunar. Hún hefur verið framkvæmdastjóri hjúkrunar á SAk frá árinu 2012 ásamt því að vera klínískur framkvæmdastjóri á bráða- og þróunarsviði frá sama ári,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. „Í störfum sínum sem framkvæmdastjóri hefur Hildigunnar öðlast víðtæka reynslu af rekstri og stjórnun svo og mannauðsstjórnun. Hún var forstöðumaður deildar kennslu, vísinda og gæða á SAk um tíu ára skeið, sem framkvæmdastjóri og forstöðumaður tók Hildigunnur mjög virkan þátt í uppbyggingu gæðastarfs sem síðan leiddi til alþjóðlegrar gæðavottunar á SAk. Þá hefur hún verið virk í stefnumótun bæði innan hjúkrunar og fyrir SAk í heild sinni. Hún var skólastjóri Sjúkraflutningaskólans um í tíu ár og átti ríkan þátt í því að nám sjúkraflutningamanna fluttist á landsbyggðina. Hildigunnur var formaður Landssambands heilbrigðisstofnana í þrjú ár.“

Embættið var auglýst 25. júní síðastliðinn og sjö sóttu um. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, skipaði Hildigunni í embættið til fimm ára í framhaldi af álitsgerð lögskipaðar hæfnisnefndar.

Í áðurnefndri tilkynningu segir að Hildigunnur hafi umtalsverða reynslu af kennslu og vísindum. Hún „starfaði sem lektor við Háskólann á Akureyri (HA) í fimmtán ár og er nú með stöðu klínísks lektors við heilbrigðisvísindastofnun HA. Hildigunnur hefur verið virk í vísindastarfi og er meðhöfundur á greinum í erlendum tímaritum. Einnig hefur hún mikla reynslu af alþjóðastarfi, má þar nefna verkefnastjórn á vegum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins. Hún hefur setið í stjórn Endurlífgunarráðs Evrópu í 15 ár og í framkvæmdastjórn ráðsins í fimm ár. Þá var hún í forsvari fyrir hóp leiðbeinenda sem fór á vegum Rauða kross Íslands þrisvar sinnum til Palestínu til að byggja upp þekkingu og þjálfun í endurlífgun í samstarfi við palestínska Rauða Hálfmánann.

Hildigunnur hefur BS próf í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri og MS próf í heilbrigðisvísindum frá Glasgow Caledonian háskóla. Hún hefur því háskólamenntun ásamt framhaldsmenntun sem nýtist mjög vel í starfi. Þá hefur hún lagt stund á nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.“