Fara í efni
Fréttir

Hettumávurinn hrellir í Hafnarstrætinu

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Ágangur hettumáva og fleiri fugla í miðbænum angrar fólk sem starfar þar og fólk sem á erindi í miðbæinn. Akureyri.net fékk til dæmis fyrirspurn frá manni sem starfar í miðbænum og hafði áhuga á að vita hvort „bærinn ætli að gera eitthvað í hettumávagerinu í Hafnarstræti,“ eins og það var orðað. Maðurinn segir mávana orðna óþolandi plágu, séu á öllum borðum og skítur sé um allt, þeir kroppi úr rusladöllum og svo framvegis.

Fuglinn heldur sig ekki aðeins við göngugötuna því ætið er að finna víða, til dæmis við vegasjoppur. Ein ábending varðandi hettumávinn var til dæmis um árásargjarna fugla við Leirunesti þar sem fuglinn situr jafnvel fyrir fólki sem kemur út úr sjoppunni með eitthvað matarkyns í höndunum. Fólk sem sótt hefur fótboltaleiki hefur ekki heldur farið varhluta af þessari plágu því þangað leitar mávurinn, vitandi að oft er grillað fyrir leiki, ýmislegt selt á meðan á leik stendur og svo einhverjar veitingar eftir leiki. 

Flugtak og lending í Hafnarstræti – ekki göngugötu á því augnabliki – síðdegis í dag. 

Hettumávurinn er friðaður 

Tæknilega séð eru allir villtir fuglar á Íslandi friðaðir, en friðun aflétt á sumum tegundum á ákveðnum tímabilum, mismunandi eftir tegundum. Um þetta má til dæmis lesa í svari á Vísindavefnum við spurningu um það hvort allir mávar séu friðaðir. Hettumávurinn er friðaður frá og með 1. apríl til og með 31. ágúst. Svartbakur, sílamávur, silfurmávur og hrafn eru friðaðir allt árið. Það má því ekki halda aftur af hettumávinum eða öðrum ágengum fuglum í miðbænum með aðferðum sem brjóta gegn friðuninni. 

Samkvæmt upplýsingum frá umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar er í sjálfu sér engar sérstakar aðgerðir í gangi til að halda aftur af hettumávum eða öðrum ágengum fuglum í miðbænum eða annars staðar „enda óvinnandi vegur,“ eins og Jón Birgir Gunnlaugsson, verkefnisstjóri umhverfismála á umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, orðaði það í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net. Jón Birgir segir þetta vandamál um allt land, en hjá Akureyrarbæ sé reynt að passa upp á að rusladallar séu tæmdir reglulega því fuglinn leiti að æti í þeim. Fuglinn sækir einnig mikið í matarvagna í miðbænum og auðvitað fælir það þá ekki frá ef fólk er að gefa þeim, eins og raunin sé við andapollinn í Gilinu.

Mávur sem sveif um Hafnarstrætið í dag, ef til vill að svipast um eftir næringu. 

Hettumávurinn og aðrir skyldir fuglar sækjast eftir æti og leita þangað sem það er að fá. Mögulega er árangursríkasta aðferðin við að halda aftur af þeim að ganga vel um, passa upp á að ekki sé opinn aðgangur í sorpílát og fleira í þeim dúr. En í góða veðrinu á Akureyri vill fólk auðvitað geta matast undir berum himni um leið og það nýtur veðurblíðunnar og það vita mávarnir. 

Hljóðfælur og gaddar notuð víða

Akureyri.net leitaði til heildverslunarinnar Streymis ehf., sem flytur inn margs konar varning til meindýravarna. Halldór Andri Árnason, eigandi og framkvæmdastjóri Streymis, segir helst vera hægt að nota hljóðfælur annars vegar og svo gaddabelti á þakbrúnir til að halda fugli frá. Gaddabúnaðurinn er þá til að hindra að fuglinn setjist á þakbrúnirnar og driti þar allt út. Hljóðfælurnar eru líka mikið notaðar hjá fyrirtækjum í matvælavinnslu, og enn öflugri hljóðfælur til dæmis á flugvöllum, svo dæmi sé tekið.

Hljóðfælur henta þó ekki vel inni í þéttum hverfum þar sem eru íbúðir og gististaðir, en þó eru til hátíðnihljóðfælur sem gefa frá sér hljóð sem mannseyrað nemur ekki. Slík tæki dekka þó ekki nema mjög afmarkað svæði, kannski 3-400 fermetra hver fæla, á meðan venjulegar og öflugar hljóðfælur geta fælt burt fugl á allt að 12 hektara svæði, en slíkur búnaður er þá frekar notaður á opnum svæðum eins og flugvöllum, kornökrum og víðar. Halldór Andri segir hljóðfælurnar sem hann eigi til á lager ná frá 0,4 upp í 2,4 hektara eftir stærð búnaðarins.

Vilji fólk fara út í enn stærri útbúnað og kostnað sem því tilheyrir er til tækni sem notuð eru til dæmis á þök stórra bygginga þar sem fæla þarf burtu fugl. Þá eru myndavélar sem skanna svæðið og þegar þær nema hreyfingu kviknar á leisigeisla sem fælir fuglinn frá. Á slíkum búnaði getur svo verið vörn þannig að ef honum er beint upp þá slokknar á geislanum og því ekki hægt að trufla flugumferð með slíkum búnaði. Almennt þurfa innflytjendur búnaðar þar sem notaður er leisigeisli að sækja um leyfi til Geislavarna ríkisins til að fá að flytja inn slíkan búnað.

Meindýravarnir unnar eftir beiðnum

Meindýravarnir Eyjafjarðar eru með samning við Akureyrarbæ í tengslum við meindýravarnir, en sú vinna fer nánast eingöngu fram eftir beiðnum frá umhverfismiðstöðinni eða öðrum sem um ræðir í hverju tilfelli fyrir sig. Fyrirtækið hefur einnig umsjón með vörnum gegn rottum og hefur gengið mjög vel á þeim vettvangi, langt síðan komið hefur útkall vegna rottugangs. Varðandi hettumávinn er svarið einfaldlega það sama og fram kom hér fyrr í fréttinni, það má ekki drepa hann og því ekki hægt að halda aftur af ágangi hans þannig. Hins vegar má svo segja að það sé á ábyrgð húseigenda á hverjum stað að gera eitthvað í málinu varðandi ágang fugla og sóðaskap sem þeim fylgir.