Helgi Guðmundsson fv. bæjarfulltrúi látinn

Helgi Guðmundsson, rithöfundur, trésmiður, fv. bæjarfulltrúi á Akureyri og fv. ritstjóri Þjóðviljans, lést á sjúkrahúsinu á Akranesi 26. ágúst, 81 árs að aldri. Þetta kom fram á mbl.is í morgun.
Helgi fæddist 9. október 1943 á Staðastað í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Guðmundur Helgason prestur og Þorvalda Hulda Sveinsdóttir, húsmóðir og organisti. Helgi ólst upp í Neskaupstað og síðar á bænum Skuggahlíð í Norðfjarðarhreppi.
Í frétt mbl.is segir m.a. að Helgi tók próf í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1967 og varð húsasmíðameistari á Akureyri 1974. Hann var ritstjóri Norðurlands, blaðs Alþýðubandalagsins á Akureyri, 1971-1972 og starfsmaður Verkalýðsfélagsins Einingar á Akureyri 1972-74. Næstu tíu árin sinnti Helgi félagsstörfum fyrir Trésmíðafélag Akureyrar og Samband byggingarmanna og var um tíma formaður verkamannabústaðanna á Akureyri. Helgi vann fyrir ASÍ og MFA, sat í stjórn MFA 1968-1988 og sinnti ritstörfum til 1990, m.a. sem blaðamaður á Þjóðviljanum. Síðustu tvö ár Þjóðviljans, 1990-1992, var hann ritstjóri blaðsins ásamt Árna Bergmann.
Á árum sínum á Akureyri sat Helgi í bæjarstjórn fyrir Alþýðubandalagið, um tíma sem formaður bæjarráðs, og átti m.a. sæti í stjórn Laxárvirkjunar.