Fara í efni
Fréttir

Heimilisleysi vaxandi vandamál á Akureyri

Mynd úr gistiskýli fyrir heimilislausa í Berlín. Hópstjórar Frú Ragnheiðar tóku myndina í fræðsluferð sinni þar í borg.

Heimilisleysi er vaxandi vandamál á Akureyri. Í viðtali Akureyri.net við hópstjóra Frú Ragnheiðar, nálaskiptaþjónustu Rauða krossins, ræddu hópstjórarnir Edda Ásgrímsdóttir og Berglind Júlíusdóttir um stöðuna. Umfang heimilisleysis á Akureyri er ekki auðvelt að áætla, en Edda og Berglind segja að í skjólstæðingahóp Frú Ragnheiðar séu allavega fimm einstaklingar í þessari stöðu í dag. „Við erum samt náttúrulega bara með fólk sem notar vímuefni í æð og vitum því ekki um umfang heimilisleysis hjá fólki sem notar ekki þjónustu Frú Ragnheiðar,“ tekur Edda fram.

„Heimilisleysi þýðir ekki endilega að fólk sofi á götunni,“ segir Edda. „Fólk á ekki heimili, en hefur afdrep hjá öðrum. Kannski eru margir saman í einni íbúð, eða eitthvað slíkt. Ef það slettist upp á vinskapinn, kemur það fólki í erfiða stöðu.“ Frú Ragnheiður er verkefni sem er á vegum Rauða krossins á Akureyri, Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk sem notar vímuefni í æð geta fengið hreinan nálaskiptabúnað. 

Hjá Akureyrarbæ er stefnan að útvega öllum sem þurfa félagslega íbúð, en biðlistinn er misjafnlega langur og löng bið getur augljóslega reynst fólki í þessari stöðu erfið. „Skjólstæðingar okkar lenda kannski í ofbeldi, til dæmis, og þá er mjög alvarlegt að eiga ekki í nein hús að venda,“ bendir Edda á. 

Edda og Berglind fóru á vegum Rauða krossins í fræðsluferð til Berlínar í apríl, til þess að skoða sambærileg úrræði þar í borg. Meðal annars tóku þær vakt í gistiskýli, þar sem hægt er að gista, fá heitan mat og komast í öruggt neyslurými. „Ég myndi vilja sjá skaðaminnkunarhús á Akureyri,“ segir Berglind. „Þar væri allt til alls. Betra væri ef það væri kynjaskipt, en það er ekki nauðsynlegt. Þar væri neyslurými og gistiskýli, og það þyrfti ekki einu sinni það mörg pláss. Auðvitað væri nálaskiptaþjónustan á sínum stað. Við og sjálfboðaliðarnir okkar myndum vera alsæl ef staðan væri svona.“ 

 

Viðtalið við Eddu og Berglindi má lesa HÉR

Facebook síða Frú Ragnheiðar